Upp­gjörið: KR - Aftur­elding 2-1 | Mos­fellingar í fallsæti eftir tap í Vestur­bænum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Aron Sigurðarson jafnaði metin af vítapunktinum eftir að hafa skotið tvisvar í stöngina.
Aron Sigurðarson jafnaði metin af vítapunktinum eftir að hafa skotið tvisvar í stöngina. Vísir/Anton Brink

KR er komið upp úr fallsæti í Bestu deild karla. Varð það ljóst eftir endurkomu sigur á Meistaravöllum gegn Aftureldingu. Lokatölur 2-1 eftir að gestirnir höfðu leitt leikinn í hálfleik.

KR hafði ekki haldið hreinu síðan 27. apríl og var engin breyting á því í kvöld, því eftir aðeins tíu mínútna leik skoruðu gestirnir með sinni fyrstu tilraun í leiknum. Skallaði þá Hrannar Snær hornspyrnu Olivers Sigurjónssonar í netið úr markteignum.

Hrannar Snær fagnar marki sínu.Vísir/Anton Brink

Eftir þetta og fram að hálfleik þá snerist leikurinn að mestu um Aron Sigurðarson, fyrirliða KR, sem var allt í öllu í sóknarleik KR. Aron reyndi hvað hann gat til þess að jafna leikinn og átti sex skot að marki Aftureldingar í fyrri hálfleik þar á meðal eitt í stöngina.

Eitt þeirra færa var algjört dauðafæri. Jökull Andrésson hafði þá varið skot Matthias Præst fimlega sem breytt hafði um stefnu af varnarmanni. Boltinn lenti í kjölfarið fyrir framan Aron sem stóð fyrir opnu marki af um fjögurra metra færi. Jökull náði þá einnig að kasta sér fyrir skot hans.

Aron Sig hefði á öðrum degi skorað þrennu.Vísir/Anton Brink

Pressan var nánast orðin óbærileg að marki Aftureldingar og endaði hálfleikurinn á bylmingsskoti Matthias Præst í slá. Staðan þó 0-1 í hálfleik.

KR hélt áfram að þjarma að marki Aftureldingar í seinni hálfleik. Á 53. mínútu fékk KR víti. Aron átti þá sendingu á Gabríel Hrannar sem var í kjörinni fyrirgjafastöðu inn á teig gestanna. Í stað þess þó að leika knettinum þá lék hann á Elmar Kára Cogic sem feldi hann í kjölfarið. 

Víti dæmt og fyrrnefndur Aron á punktinn og skoraði hann af miklu öryggi úr spyrnunni. Um tíu mínútum seinna var KR komið yfir. Gabríel Hrannar kom þá með fyrirgjöf frá vinstra vítateigshorninu. Eiður Gauti fleygði sér á fyrirgjöfina og flugskallaði boltann í netið.

Eiður Gauti og Orri Hrafn fagna.Vísir/Anton Brink

Eftir þetta byrjaði Afturelding að taka frumkvæðið í leiknum hægt og bítandi, án þess þó að skapa sér álitleg færi. KR-ingar héldu því út, þrátt fyrir að Gyrðir Hrafn og Aron Þórður voru komnir á aðra löppina á síðustu mínútum leiksins.

KR-ingar þakka fyrir sig.Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Þegar Aron Sigurðarsonar jafnaði af vítapunktinum var þungu fargi létt af öllum þeim sem tengdust KR á vellinum, leikmönnum sem og stuðningsmönnum. Virtist markið auka trúnna í leik KR sem skilaði skömmu síðar öðru marki.

Jökull fór i rétt horn en það var ekki nóg.Vísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Eins og oft áður þá var Aron Sigurðarson bestur í liði heimamanna. Hann stjórnaði öllum sóknaraðgerðum KR í leiknum og jafnaði leikinn. Gabríel Hrannar var einnig frábær. Lagði hann upp sigurmarkið ásamt því að vinna vítaspyrnuna sem Aron skoraði úr.

Gabríel Hrannar var með áætlunarferðir upp vinstri vænginn.Vísir/Anton Brink

Mosfellingar náðu aldrei að ógna forystu KR af neinu viti eftir að hafa lent undir, sem er umhugsunarvert fyrir gestina gegn jafn slöku varnarliði og KR er.

Dómarar

Þórður Þorsteinsson Þórðarson og hans teymi voru flottir í dag. Þórður lét leikinn fljóta vel en greip inn í þegar á þurfti, t.a.m. þegar vítið var dæmt sem var hárréttur dómur.

Gyrðir Hrafn og Hrannar Snær.Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Þetta var annar leikur KR á þessu tímabili á Meistaravöllum. Þó nokkur fjöldi var mættur klukkutíma fyrir leik og jókst sá fjöldi stöðugt fram að upphafsflauti og endaði fjöldi áhorfenda í 1.507 manns. KR-ingar eru sennilega að bjóða upp á eitt mesta úrval veitinga og varnings á leikdegi í Bestu deildinni og virtist aðsóknin vera góð í hvort tveggja.

Það vakti athygli að það var fullorðin maður í hlutverki boltasækis næst stuðningsmönnum KR. Er það verkefni gjarnan falið börnum yngri en tólf ára, en um var að ræða refsingu. Hafði þessi harði KR stuðningsmaður rekið lestina í Fantasy-deild og hlotið þessi örlög í kjölfarið.

Magnús Már: „Við hefðum getað gert margt betur“

Magnús Már á hliðarlínunni.Vísir/Anton Brink

Magnús Már Einarsson var nokkuð svekktur eftir tap í Vesturbænum í kvöld gegn KR.

„Alltaf svekkjandi að tapa. KR-ingar herjuðu mikið á okkur í leiknum og fengu góð færi og í sjálfum sér ekki ósanngjarn sigur. Við erum samt komnir í forystu hérna og eigum fína spilkafla í fyrri hálfleik þar sem vantaði bara betri ákvarðanir til þess að komast í betri stöður og mögulega í 2-0. Sama skapi þá um leið og þeir komast í forystu þá tökum við yfir leikinn og ég hefði viljað sjá jöfnunarmark hér undir lokin. Við höfðum trú allan tíman. Á einhverjum degi þá hefðum við jafnað hérna en það var ekki í dag,“ sagði Magnús Már eftir leik.

„Það vantaði bara betri ákvarðanir á síðasta þriðjung, betri krossa inn í teiginn, fylla teiginn betur og KR-ingar vörðust vel hérna undir lokin,“ sagði Magnús Már um það hvað hafi vantað upp á í leik liðsins þegar það var lent undir.

Finnur Tómas og Benjamin Stokke berjast um boltann.Vísir/Anton Brink

Hann var þó sáttur við frammistöðuna að mörgu leiti þó leikurinn hafi langt í frá verið einhver stjörnuleikur.

„Að mörgu leyti er ég sáttur með frammistöðuna en við hefðum getað gert margt betur. Þetta var alls ekki okkar besti leikur í sumar og margt sem við getum gert betur. Það eru líka of langir kaflar þar sem þeir eru að herja á okkur og við náum ekki að halda í boltann.“

Tveir dagar eru þangað til að félagsskiptaglugginn lokar. Það er ekki búist við fleiri nýjum andlitum í lið Mosfellinga fyrir þann tíma.

„Það verður eitthvað mjög óvænt ef það gerist. Það er allavegana ekki í kortunum. Við erum bara með öflugan hóp og frábæra liðsheils þannig að við erum bara klárir í bátanna fyrir það sem er fram undan. Það eru níu leikir eftir og mikið af stigum í pottinum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira