Fótbolti

San Marínó gæti tryggt sig í umspil HM-sæti með því að tapa nógu stórt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það á ekki að vega gott fyrir lið að tapa stórt en það gæti verið það fyrir landslið San Marínó í þessum glugga.
Það á ekki að vega gott fyrir lið að tapa stórt en það gæti verið það fyrir landslið San Marínó í þessum glugga. Getty/Jonathan Moscrop

Íslenska karlalandsliðið dreymir um sæti í umspili um laus sæti á HM og þarf mjög hagstæð úrslit úr leikjum sínum til að ná þangað. Önnur smáþjóð í Evrópu er hins vegar í allt annarri stöðu.

Undankeppni HM í fótbolta gæti þróast þannig að líkurnar á því að San Marínó komist í umspil gætu aukist með því meiri mun sem liðið tapar á móti Rúmeníu.

Breska ríkisútvarpið fór yfir stöðuna.

Þessi heldur fáránlega atburðarás gæti orðið að veruleika vegna umspilskerfis Evrópu þar sem fjórir riðilsigrarar úr Þjóðadeildinni koma inn, á sama tíma og markamunur spilar hlutverk í undankeppni HM.

Markatalan er 1-32

San Marínó hefur hingað til spilað sjö leiki í sínum riðli og er með sjö töp í röð og markamuninn 1-32 eftir meðal annars 0-10 tap fyrir Austurríki í október.

Þær tólf þjóðir sem vinna sinn riðil fara beint á HM, en þeir tólf sem lenda í öðru sæti fara í umspil þar sem einnig koma inn þeir fjórir hæst settu af þeim sem unnu sinn riðil í Þjóðadeildinni af þeim sem eru ekki þegar komnir áfram eða í öðru sæti.

San Marínó hefur verið í D-deild Þjóðadeildarinnar en vann sinn riðil þar fyrir ofan Liechtenstein og Gíbraltar. Eins og staðan er núna er San Marínó lægst sett af fjórtán riðilsigurvegurum í Þjóðadeildinni.

Það þrengir hópinn

Margir af riðilsigurvegurum Þjóðadeildarinnar munu enda í fyrsta eða öðru sæti í sínum undankeppnisriðlum fyrir HM, og það þrengir hópinn hjá þjóðum sem eru að sækjast eftir aukatækifæri í umspilinu.

Eins og staðan er núna stefnir í að Wales, Rúmenía, Svíþjóð og Norður-Írland komist í svokallað umspil í gegnum Þjóðadeildina, á meðan Moldóva og San Marínó eru einu riðilsigurvegararnir úr Þjóðadeildinni sem gera það ekki miðað við núverandi stöðu í töflunni.

Kostur ef Rúmenía nær öðru sætinu

Það getur þó breyst, og fyrir San Marínó væri það kostur að Rúmenía tryggi sér annað sætið í H-riðli undankeppni HM á undan Bosníu og Hersegóvínu – þannig að annað sæti opnast í „Þjóðadeildarröðinni“.

Rúmenar mæta Bosníu á útivelli þremur dögum áður en allt ræðst á heimavelli gegn San Marínó. Ef Rúmenía og Bosnía enda riðlakeppnina með jafnmörg stig mun markamunur ráða úrslitum. Eins og staðan er núna eru Bosníumenn þremur stigum á undan Rúmenum, en þeir eiga útileik gegn toppliði Austurríkis í síðasta leik.

Aðeins þrír sigrar í sögunni

Rúmenía gæti þurft á stórsigri að halda til að komast fram úr Bosníumönnum á síðasta degi undankeppninnar – og um leið mögulega tryggt San Marínó ótrúlegt umspilssæti.

San Marínó hefur aldrei áður verið nálægt því að komast á stórmóti. Landsliðið hefur unnið þrjá leiki í sögunni, gert tíu jafntefli og tapað 206 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×