Fastir pennar

Da Vinci-lykillinn og sannleikurinn 2.hluti

Nú - í gær var ég að fjalla hér svolítið um hina geysivinsælu bók Dans Brown sem heitir Da Vinci-lykillinn og lesa upp úr grein sem Bernard nokkur Hamilton skrifaði fyrir skemmstu í enska bókmenntaritið TLS um þá bók, og þá einkum og sér í lagi hvernig hún mistúlkar kirkjusöguna og kristnar kenningar. Fyrst hálfnað var verk, þá er best ég held áfram að glugga í grein Hamiltons, og þar komið sögu að hann hafði beint athyglinni að hinum svonefndu gnostum og umfjöllun Da Vinci-lykilsins um þá. Gnostar voru sértrúarhópar innan kristninnar sem blómstruðu á fyrstu öldunum eftir Krists burð og kenndu sig við gríska orðið "gnosis" sem þýðir eitthvað í námunda við "þekking". Þeir töldu sig nefnilega yfir sérstakri, leynilegri þekkingu á guðdóminum, sem illa væri séð af kirkjulegum yfirvöldum. Augljóslega henta gnostar því vel öllum þeim sem vilja skrifa samsærisbækur um að kaþólska kirkjan hafi bælt niður hina sönnu kenningu Jesú frá Nasaret - en það er einmitt það sem vakir fyrir Dan Brown. Gallinn er bara sá, eins og Bernard Hamilton benti á, og margir hafa svo sem gert á undan honum, að í bók Dans Brown rekst hvað á annars horn. Þungamiðjan í bók hans er nefnilega sú að Jesú hafi í raunveruleikanum verið venjulegur dauðlegur maður, en ekki guðlegur sonur Guðs, en kirkjan hafi í rauninni gert hann heilagan - ekki síst fyrir áhrif frá Konstantínusi keisara mikla sem snemma á fjórðu öld hafði afráðið að hann þyrfti nýja ríkistrú til að sameina Rómaveldi og beindi þá sjónum sínum að kristninni. Hinn upprunalegi Jesú - sem var mikill og vitur kennari með fallegar kenningar um kærleikann en gerði enga kröfu til að vera sonur Guðs - hann hentaði hins vegar ekki Konstantínusi sem vildi guðlega veru, sem auðvelt væri að skipa heiðingjunum í ríki sínu að tigna. Því lét hann kalla saman frægt kirkjuþing í Níkeu í Tyrklandi árið 325 þar sem Dan Brown gefur í skyn að kenningunni um guðdóm Jesú hafi verið troðið upp á kirkjuna - og allir þeir sem andvígir voru og halda vildu fast í hina upprunalegu kenningu og hinn upprunalega Jesú, þeir urðu ofsóttur minnihlutahópur og hurfu niður í skúmaskot sögunnar með sannleikann. Og þá ekki síst hversu hátt undir höfði Jesú hafði gert konum í sínum upprunalega lærisveinahópi - en sjálfur hafði hann verið kvæntur Maríu Magdalenu og átt með henni barn, segja kenningar þær sem Dan Brown styðst við. Hin karllæga keisarakirkja, sem Konstantínus mikli kom á fót, hún vildi ekki hafa svoleiðis og lagði sig í líma við að fela áhrif kvenna á frumkirkjuna. En sannleikurinn lifði þó - fyrst í hópum eins og hinum gnostísku en síðan í leynilegum reglum eins og Síon-reglunni sem spilar mikla rullu í bók Dans Brown. Þetta hljómar svo sem ágætlega, en stenst þó miður engan veginn. Kaþólska kirkjan hafði löngu fyrir daga Konstantínusar mikla afráðið að Jesú hefði verið guðlegur. Það var engin uppfinning keisarans. Og þótt gnostar væru vissulega ósammála mörgu í kenningu kaþólsku stórkirkjunnar, þá voru þeir þó hjartanlega sammála kirkjunni um að víst hefði Jesú verið guðlegrar ættar. Þeir samþykktu kannski ekki að Jesú hefði verið beinlínis sonur Guðs í þeim nánast líkamlega skilningi sem stórkirkjan virðist leggja í málið, en töldu hann rækilega guðlegan sendiboða alheimsguðdómsins - eitthvað svoleiðis. Kenningin um að Jesú hafi verið mannlegur fær því engan stuðning af ritum gnosta, þótt hitt sé rétt að í gnostískum guðspjöllum var iðulega meiri áhersla lögð á konurnar í hópi lærisveina Jesú heldur en í hinum hefðbundnu guðspjöllum sem stórkirkjan tók upp í Nýja testamentið. Þar dugar að nefna Tómasarguðspjall sem fannst í Nag Hammadí í Egiftalandi um miðja tuttugustu öld en þar er María Magdalena augljóslega í fararbroddi lærisveinanna - ásamt Pétri postula. Á hinn bóginn er enginn staður í hinum gnostísku guðspjöllum sem bendir til þess að Jesú hafi átt barn, sem er þungamiðja plottsins í Da Vinci-lyklinum. Það er einfaldlega ekkert á slíkt minnst. Hvað snertir meintan konungdóm Jesú, þá bendir Bernard Hamilton á að hugmyndin um að hann hafi verið af ætt Davíðs konungs sé náttúrlega bara komin beint úr Biblíunni sjálfri - þar sem eru tvær ættartölur sem eiga að sýna fram á það - þótt þær séu reyndar mjög mismunandi. Hamilton nefnir hins vegar ekki fáránleikann í þeim ættfærslum. Í fyrsta lagi má spyrja - eiga menn yfirleitt að taka mark á svona ættartölum, því skiptir það í rauninni máli hvort einhver af langlanglangfeðgum manns hafi borið konungskórónu? Mönnum sem leiðast út í að svara einu sinni svona ættfærslum, þeim hættir til að taka í ógáti forsenduna gilda - þá að þetta skipti einhverju máli. Að það sé til blátt blóð í alvörunni, altso. Hvort Jesú var kominn af Davíð konungi er í rauninni lítið vafamál. Því það voru liðin heil þúsund ár frá dögum Davíðs þegar Jesú fæddist og einföld tölfræði segir manni að ábyggilega hver einasta manneskja í Gyðingalandi um tíma Jesú hefur verið komin af Davíð konungi - og það á marga vegu. En ekki bara af Davíð konungi, heldur líka eldabuskunni hans, einkaþjóninum hans, hreingerningafólkinu í höllinni og hverjum einasta dáta í hernum hans sem yfirleitt átti afkomendur. Þessu átta jafnvel glöggir menn eins og Bernard Hamilton sig ekki alltaf á, en þetta skiptir reyndar ekki síður máli þegar ætt Jesú er rakin í hina áttina - frá afkomendum hans, hafi hann þá átt þá einhverja. En víkjum aðeins nánar að því seinna - könnum fyrst líkurnar á því að svo hafi verið. Kenningar sögupersónanna í bók Dans Brown um að Jesú hafi getið af sér einhvers konar konunglegan ættboga, hún er ekki ný af nálinni. Dan Brown hefur soðið þær upp úr bókinni Hið heilaga blóð og hið helga gral sem út kom árið 1982; höfundar voru Michael Baigent, Richard Leigh og Henry Lincoln. Þetta fer hann ekkert í felur með, enda er minnst á þá bók í Da Vinci-lyklinum og nafnið á þeirri sögupersónu sem rekur kenningarnar, Leigh Teabing, það er búið úr úr nöfnum tveggja af þremur höfundum Hins heilaga blóðs - Leigh er komið frá Richard Leigh og Teabing er anagram eða stafarugl úr eftirnafni Michael Baigents. Þessi persóna Dans Brown hefur þetta að segja í Da Vinci-lyklinum um bók þremenninganna: "Að mínum smekk voru höfundarnir stundum full djarfir í ályktunum sínum en frum-forsenda þeirra var fullgild og þeim má telja til tekna að hafa loksins komið hugmyndinni um afkomendur Jesú upp á yfirborðið." Þetta má mjög til sanns vegar færa og eins og Bernard Hamilton bendir á í greininni í TLS, þá vakti bók þremenninganna mikla athygli og meira að hið virta breska ríkissjónvarp BBC sýndi kenningunum sem þar birtust mikinn sóma. Hún seldist líka mjög vel þótt salan hafi ekki komist í hálfkvisti við þá ótrúlegu metsölu sem Da Vinci-lykillinn hefur náð. Hins vegar var vægt til orða tekið hjá persónu Dans Brown að höfundurnir þrír hafi verið "full djarfir í sínum ályktunum" - bók þeirra var mósaík úr ósamstæðum brotum upp úr allskonar þjóðsögum, sögusögnum og ævafornu slúðri og þvingað saman í þá mynd sem þeir vildu fá fram. Bernard Hamilton tekur nokkurn veginn svo til orða að höfundarnir hafi ekki lagt fram neinar þær vísbendingar um meinta afkomendur Jesú sem fullnægt gætu skilyrðum jafnvel hinna frjálslegustu fræðimanna. Hamilton rekur svo þær kenningar sem sögupersónur Dans Brown, fyrrnefndur Teabing og aðalpersónan Robert Langdon, þylja yfir aðalkvenhetjunni Sophie. "Eftir krossfestinguna flúði ekkja Jesú, María Magdalena, til Frakklands þar sem hún fæddi dóttur Jesú sem hún skírði Söru. Þetta er bara ummyndun á gamalli þjóðsögu frá miðöldum en samkvæmt henni flúðu María og systkini hennar Marta og Lasarus til Próvenshéraðs í Frakklandi ásamt þjónustustúlku sinni sem sögð var heita Sara. Sara þessi var tekin í dýrlingatölu og er enn dýrkuð af Sígaununum í Próvens. Á hverju ári halda þeir hátíð þar sem þeir leika helgisöguna, undir umsjá kaþólskra klerka, en leikurinn gengur út að sýna landgöngu Maríu og fylgdarliðs í Frakklandi. Sígaunarnir ríða út í sjó og bera svo styttu af sánkti Söru á land upp. Teabing stekkur svo nokkur hundrað ár fram í tímann og segir frá því að einn afkomandi Söru hafi gengið að eiga einn af Meróvinga-kóngum Frakklands." Hér má ég til með að skjóta því inn í frásögn Hamiltons að þegar Meróvingar komust á konungsstól í Frakklandi, þá var komið fram undir árið 500 - altso eitthvað um fimm aldir liðnar síðan hin meinta dóttir Jesú fæddist eða komst til Frakklands. Það þýðir - samkvæmt tölfræði erfðavísindanna - að hugsanlegur afkomandi hennar var svona álíka skyldur þessari formóður sinni og hver einasti Íslendingur á vorum dögum er skyldur Jóni Arasyni biskupi. Sérhver Íslendingur er kominn af herra Jóni, eins og margfrægt er orðið, og það á marga vegu, en það þýðir ósköp einfaldlega að það hefur ekki neitt praktískt gildi. Það er ekki hægt að segja til dæmis að ég hafi erft eitthvað sérstaklega frá Jóni Arasyni því það er svo margt margt fleira sem ég hef erft frá öðrum forfeðrum og formæðrum mínum - og í reynd er ekki hægt að segja að ég hafi erft einhverja sérstaka eiginleika frá svo fjarlægum forföður sem Jóni Arasyni. Mínir eiginleikar eru komnir frá foreldrum, afa og ömmu, og kannski langömmu og langafa, ekki eða að minnsta kosti varla frá neinum eldri forfeðrum eða -mæðrum. Því þó ekki sé farið lengra aftur en það, þá eru mínar erfðir komnar frá svo mörgum og flækjast saman á svo margvíslegan hátt að það hefur enga þýðingu að rekja eiginleika lengra, þótt gaman kunni að vera að ættartölum eftir sem áður. Það sem ég vildi sagt hafa - hafi Jesú eignast dóttur og hún svo eignast afkomendur og einn afkomandinn gengið að eiga Meróvingakóng um eða upp úr árinu 500, þá er altént alls ekki hægt að segja að sá afkomandi hafi erft eitthvað markvert frá Jesú sjálfum. En það er samt það sem kenningasmiðir á borð við þremenningana sem skrifuðu Hið heilaga blóð og svo þeir Dan Brown og sögupersónur hans vilja endilega fram - að það hljóti að hafa verið eitthvað voðalegt merkilegt og þeir hika ekki við að segja heilagt við einhvern meintan afkomanda Jesú - fimm hundruð árum við hans dag. Sá afkomandi hljóti að hafa verið voðalega kærleiksríkur og háleitur og heilagur í hugsun. Og það verður að teljast meira en lítið fyndið að þessir umræddu kenningasmiðir skuli leggja sig svo fram um að tengja Jesú við Meróvingana, því þeir voru síður en svo kærleiksríkir og raunar vandfundnir meiri þorparar og skítseyði í samanlögðum kóngaættum miðaldanna. En höldum áfram að vitna til Bernards Hamiltons: "Með hjónabandi þessa afkomanda Jesú og Meróvinga-kóngsins hafði hin konunglega ætt" - það er að segja konungsættin sem Jesú tilheyrði - "þannig hafði hún öðlast veraldlegt vald um skeið. Meróvingum var svo steypt af stóli árið 751 af Pepín, föður Karlamagnúsar, og Teabing, sögupersóna Dans Browns, hleypur þá yfir önnur 450 ár og staðnæmist ekki fyrr en árið 1099 þegar Evrópumenn í fyrstu krossferðinni hernámu Jerúsalem. Franski aðalsmaðurinn Godfrey frá Bouillon varð hæstráðandi yfir hinni helgu borg. Teabing heldur því fram að hann hafi verið afkomandi Meróvingakónganna og þannig afkomandi Jesú en staðreyndin er reyndar sú að Godfrey var í móðurætt kominn af Karlamagnúsi, syni mannsins sem steypti Meróvingunum af stóli." Má ég þá enn skjótast inn í frásögn Hamiltons til að benda á að úr því hér voru liðin 500 ár síðan Meróvingar voru upp á sitt besta, þá má ganga út frá því sem vísu að Godfrey þessi hafi vissulega líka verið kominn af einhverjum Meróvingum - og eflaust á marga vegu. Þó ekki sé á þann hátt sem Teabing og Dan Brown og aðrir kenningasmiðir vilja vera láta. En Hamilton heldur sem sagt áfram: "Okkur er tjáð í Da Vinci-lyklinum að Godfrey af Bouillon hafi stofnað Síon-regluna árið 1099 til þess að varðveita þá leynilegu vitneskju um ættboga hans sem fram að því hafði eingöngu geymst munnlega. Þrjátíu árum síðar var Regla musterisriddaranna stofnuð og gefið er til kynna að hún hafi á einhvern hátt verið undir Síon-regluna sett. Þessi síðari regla gerði sér bækistöðvar á Musterishæð og okkur er sagt að reglubræður hafi hafið mikinn fornleifagröft á þeim stað þar sem musteri Salómons hafði staðið. Þaðan hafi þeir fjarlægt fjögur mikil koffort af skjölum frá því fyrir daga Konstantínusar mikla. Þessi skjöl eiga hafa sannað fullyrðingar Síon-reglunnar um hver Jesú var í raun og veru og hvað hann kenndi. Koffortin voru flutt til Evrópu. Árið 1291 féll svo krossfararíkið í Palestínu í hendur múslima og Síon-reglan og musterisriddararnir hopuðu til vesturs. Svo gerðist það árið 1307 að musterisriddararnir voru handteknir á einu bretti að undirlagi Filippusar fjórða Frakkakóngs og með hlutdeild Klemensar páfa fimmta. Sjö árum seinna var reglan bönnuð. Í Da Vinci-lyklinum kemur hins vegar fram að Síon-reglunni hafi tekist að skjóta undan hinum mikilvægu skjölum og jafnframt auðnast að varðveita ættboga Jesú. Og reglan er ennþá til og listi yfir stórmeistara hennar birtist á blaðsíðu 451 í Da Vinci-lyklinum. Svo einkennilega vill til að þótt reglan sé ekki síst helguð því að varðveita meintar upprunalegar kenningar Jesú um mikilvægi konunnar og hins kvenlega, og þótt konur geti vissulega orðið stórmeistarar í reglunni, þá hefur engri konu verið treyst fyrir því síðan Iolande nokkur de Bar andaðist árið 1483. Allir arftakar hennar hafa verið karlmenn, flestir mjög frægir: svo sem Sandro Botticelli, Leonardo da Vinci, Isaac Newton, Claude Debussy og Jean Cocteau." Þannig rakti Bernard Hamilton í stórum dráttum baksvið plottsins í Da Vinci-lyklinum. En síðan hefst hann handa um að rífa þetta allt saman niður. Því "þessi útlistun á viðhaldi hins sögulega leyndarmáls gegnum aldirnar er ekki mjög sannfærandi. Frásögnin fyrstu þúsund árin styðst við fáar vísbendingar og engar sannanir. Þær meintu sannanir sem byggðar eru á krossfaratímanum virðast við fyrstu sýn meira sannfærandi. Það er söguleg staðreynd að Regla musterisriddaranna var stofnuð árið 1128 og hafði aðsetur á Musterishæð. En musterisriddararnir voru ekki í neinum tengslum við Síon-regluna. Hún var frá upphafi undir beinni stjórn páfans", sem þýðir meðal annars að það er fáránlegt að halda því fram að henni hafi verið ætlað að hjálpa til við að varðveita leyndarmál sem páfastóll vildi út úr heiminum. "Reglan var bönnuð árið 1312 eftir að Filippus Frakkakóngur hafði beitt Klemens páfa miklum þrýstingi. Riddararnir voru dregnir fyrir dóm sakaðir um villutrú, kynvillu og dýrkun á skurðgoðinu Bahomet. Fáir fræðimenn telja nokkuð hæft í þessum ásökunum og segja líklegra að reglan hafi fyrst og fremst verið Frakkakóngi þyrnir í augum af því hún var vellrík og hafði engu raunverulegu hlutverki að gegna eftir að Landið helga tapaðist. Þótt sumir samtímamenn reglubræðra hafi trúað því að eitthvað væri hæft í ásökunum gegn þeim, þá hvarflaðí ekki að neinum þá að þeir hefðu verið brotnir á bak aftur af því þeir byggju yfir einhverri leynilegri vitneskju um hina upprunalegu kenningu Jesú. Og það var ekki fyrr en á átjándu öld sem samsæriskenningar um réttarhöldin yfir musterisriddurunum fóru að skjóta upp kollinum. Þær voru fyrst og fremst runnar undan rifjum hinna nýstofnuðu frímúrararegla sem héldu því fram að þær væru einhvers konar arftakar musterisriddaranna og gegnum þá tengdust þær fornri hefð allt aftur til musteris Salómons. Ennfremur sáu frímúrarar í andstöðu kaþólsku kirkjunnar við musterisriddarana hliðstæðu við baráttu kirkjunnar við þeirra eigin upplýstu trúarskoðanir og viðhorf. Íhaldsamir kaþólikkar fóru svo á nítjándu öld að líta á og fordæma musterisriddarana sem einskonar útkjálka úr hreyfingu hinna fornu gnosta og hefðu þeir reynt að grafa undan hinni einu réttu trú með átrúnaði sínum á hinum dularfulla Bahómet. En skemmst er frá því að segja að það viðhorf, sem birtist meðal annars í Da Vinci-lyklinum, að musterisriddararnir hafi helgað sig því hlutverki að geyma einhverja leynilega vitneskju um Jesú og ættboga hans á sér alls enga stoð í miðaldaritum, heldur er bara nútíma útgáfa af þessum nítjándu aldar samsæriskenningum um musterisregluna." Skrifar Bernard Hamilton um Da Vinci-lykilinn í TLS og enn er slatti eftir af greininni hans sem ég kíki kannski í síðar. Nú má auðvitað spyrja hvort skáldsagnahöfundar megi ekki taka sér söguleg bessaleyfi og vissulega er þeim það fyllilega heimilt. En gallinn er bara sá að Dan Brown fullyrðir í athugasemd fremst í bók sinni að allar upplýsingar um leynilegar reglur og helgisiði þeirra og þess háttar séu sannleikanum samkvæmar - og fyrir þá ónákvæmni svo ekki sé fastar að orði kveðið, má og á að gagnrýna hann, nú þegar fjöldi manns er farinn að líta á Da Vinci-lykilinn sem allt að því heilagan sannleik. Og það má líka minna á að það er vel hægt að skrifa spennandi frásagnir sem byggja á miðaldafræðum án þess að ganga í berhögg við sagnfræðilega þekkingu. Sjáum bara Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco sem dæmi - fræga metsölubók sem kom út fyrir rúmum tuttugu árum. Þar er öllum sagnfræðilegum fróðleik samviskusamlega til skila haldið - ólíkt því sem Dan Brown gerir í Da Vinci-lykli sínum.





×