„Allir eru að tala um...“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 6. desember 2010 09:29 Þegar maður hefur þennan ósið að kveikja alltaf á fréttunum í útvarpinu og lesa blöðin og annan vettvang þjóðfélagsumræðunnar líður manni stundum eins og maður sé „barnshöfuð í forvitnisferð um glæpi stundanna" eins og Þorsteinn frá Hamri orti. Manni líður eins og barni á rifrildisheimili. Maður fyllist magnleysi þess sem býr við stöðuga gagnkvæma heift þeirra fullorðnu. Maður veit ósköp lítið um þetta, þetta snertir mann bara óbeint - maður skilur þetta ekki alveg - en rifrildið er engu að síður orðið stór þáttur í lífi manns.Einn segir - annar segir Þetta er snúið… Einn segir að það hafi orðið forsendubrestur og að þar með sé eðlilegast að fram fari flatur niðurskurður á skuldum landsmanna - klukkunni svo að segja snúið aftur á bak þangað til fyrir hrun. Nógir séu peningarnir í bönkunum - sem grætt hafi ómælt á þessum forsendubresti - og náttúrulega lífeyrissjóðunum. Peningarnir safnist upp, nýtist engum; fólk jafnt sem fyrirtæki svo skuldum vafin að lánstraust sé ekkert og engin dáð í neinum og því sé atvinnulífinu og heimilunum í landinu smám saman að blæða út. Annar segir að ekki sé hægt að láta eins og hrunið hafi ekki átt sér stað. Forsendubresturinn sé vissulega til staðar en ekki sé hægt að þurrka hann út með óskhyggjunni einni. Þjóðin í heild hafi lifað um efni fram á bólupeningum sem ekki voru til. Og ekki sé það þjóðinni í heild í hag að bankarnir fari aftur á hausinn eins og hljóti að gerast með of stórfelldri skuldaniðurfellingu eða lífeyrissjóðirnir tæmist í einhverja ótilgreinda skuldahít. Á móti er sagt að sanngjarnt sé að allir komi að því að bera þær byrðar af forsendubrestinum hljótast - ekki bara þeir sem voru svo óheppnir að taka lán á vondum tíma. Þá er sagt að þeir sem keyptu sér húsnæði og bíla á fölskum forsendum (gengislánin) séu bara óráðsíufólk sem verði sjálft að taka ábyrgð á sínum ákvörðunum og hefði mátt vita að maður getur ekki bara tekið lán á því gengi sem manni sýnist eins og fólk var svo fávíst að halda - maður eigi ekki að kaupa sér risabíl og risaskjá eða reisa sér fjögur hundruð fermetra einbýlishús nema maður sé auðkýfingur. Því er svarað með því að vart hafi staðið önnur lán til boða á þessum tíma en gengistryggð lán og auk þess hafi mikil hvatning verið í samfélaginu til að festa kaup á stórum bílum (sem stjórnvöld skattlögðu minna en fólksbíla) og ýmsum varningi til heimilisins, til dæmis flatskjám. Og því megi heldur ekki gleyma að fólk hafi upp til hópa gert sínar greiðsluáætlanir, og jafnvel varfærnislegar, og að í þeim áætlunum hafi verið mikið svigrúm til hækkana á lánum, en ekki hafi hins vegar hvarflað að neinum að bankarnir væru komnir út á slíkt hengiflug sem raun bar vitni. Einnig verði að hafa hér í huga að fólk tók á sig skuldbindingar í húsnæðismálum í þeirri trú að það ætti auðvelt með að selja góða eign á góðu verði en hrunið svo gert það að engu svo að nú þurfi margir að greiða af tveimur eignum í einu. Á móti er dregið ögn í land, og talað um að jú jú, auðvitað eigi að hjálpa fólki sem lent hafi slíkum greiðsluvandræðum án þess að hafa sýnt af sér annað fyrirhyggjuleysi en að trúa þjónustufulltrúanum sínum, en sértækar lausnir hljóti að henta slíku fólki, frekar en ein allsherjar niðurfelling sem kannski bara gagnist þeim allra gálausustu eða þeim allra ríkustu. Því er svarað með því að benda á að bönkunum sé ekki treystandi í þeim efnum og það bjóði upp á geðþóttaréttlæti. Þeir pikki út sína þóknanlegu og felli niður skuldir hjá þeim: og svo eru tilgreindir hinir og þessir útrásarkónar, Stímkallar og kvótagosar með allt niðrum sig sem engu að síður hafi fengið stórfelldar afskriftir á ævintýralegum upphæðum og geti nú byrjað upp á nýtt að leggja drög að næsta hruni efnahagslífsins. Þá er bent á að samningur sé samningur, skuld sé skuld; orð skulu standa, það sem maður skrifar undir er skuldbinding. Og spurt: Hvernig yrði eiginlega þjóðfélagið ef það væri matsatriði skuldarans hverju sinni hvort og hvernig hann eigi að borga? Geta menn bara sagt að þeir telji að hér hafi orðið forsendubrestur og ætli ekkert að halda áfram að borga þennan skáp sem keyptur var á visa-rað í febrúar síðastliðnum? Hvernig endar það? Fyrirtækin sem ennþá hjara í landinu ganga út á að selja fólki föt og bíla, bækur, byggingarvörur, húsgögn og rafmagnsvörur, og þurfa náttúrulega að geta reitt sig á að fá greitt fyrir það sem þau selja enda margvíslegur kostnaður sem liggur að baki; Það séu með öðrum orðum ekki bara skuldarar sem hefðu hagsmuni að verja í þessu landi?… Þegar ég vaknaði á sunnudagsmorguninn glumdi í hausnum á mér lagið Give Peace a Change. Við þokumst ekkert með þessu eilífa orðastríði. Við bara tölum okkur upp að knjám. Allir verða að gefa eftir, við verðum að klára þessi mál; snúa okkur að öðru - semja, eða eins og það er svo fallega orðað á íslensku: semja frið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Þegar maður hefur þennan ósið að kveikja alltaf á fréttunum í útvarpinu og lesa blöðin og annan vettvang þjóðfélagsumræðunnar líður manni stundum eins og maður sé „barnshöfuð í forvitnisferð um glæpi stundanna" eins og Þorsteinn frá Hamri orti. Manni líður eins og barni á rifrildisheimili. Maður fyllist magnleysi þess sem býr við stöðuga gagnkvæma heift þeirra fullorðnu. Maður veit ósköp lítið um þetta, þetta snertir mann bara óbeint - maður skilur þetta ekki alveg - en rifrildið er engu að síður orðið stór þáttur í lífi manns.Einn segir - annar segir Þetta er snúið… Einn segir að það hafi orðið forsendubrestur og að þar með sé eðlilegast að fram fari flatur niðurskurður á skuldum landsmanna - klukkunni svo að segja snúið aftur á bak þangað til fyrir hrun. Nógir séu peningarnir í bönkunum - sem grætt hafi ómælt á þessum forsendubresti - og náttúrulega lífeyrissjóðunum. Peningarnir safnist upp, nýtist engum; fólk jafnt sem fyrirtæki svo skuldum vafin að lánstraust sé ekkert og engin dáð í neinum og því sé atvinnulífinu og heimilunum í landinu smám saman að blæða út. Annar segir að ekki sé hægt að láta eins og hrunið hafi ekki átt sér stað. Forsendubresturinn sé vissulega til staðar en ekki sé hægt að þurrka hann út með óskhyggjunni einni. Þjóðin í heild hafi lifað um efni fram á bólupeningum sem ekki voru til. Og ekki sé það þjóðinni í heild í hag að bankarnir fari aftur á hausinn eins og hljóti að gerast með of stórfelldri skuldaniðurfellingu eða lífeyrissjóðirnir tæmist í einhverja ótilgreinda skuldahít. Á móti er sagt að sanngjarnt sé að allir komi að því að bera þær byrðar af forsendubrestinum hljótast - ekki bara þeir sem voru svo óheppnir að taka lán á vondum tíma. Þá er sagt að þeir sem keyptu sér húsnæði og bíla á fölskum forsendum (gengislánin) séu bara óráðsíufólk sem verði sjálft að taka ábyrgð á sínum ákvörðunum og hefði mátt vita að maður getur ekki bara tekið lán á því gengi sem manni sýnist eins og fólk var svo fávíst að halda - maður eigi ekki að kaupa sér risabíl og risaskjá eða reisa sér fjögur hundruð fermetra einbýlishús nema maður sé auðkýfingur. Því er svarað með því að vart hafi staðið önnur lán til boða á þessum tíma en gengistryggð lán og auk þess hafi mikil hvatning verið í samfélaginu til að festa kaup á stórum bílum (sem stjórnvöld skattlögðu minna en fólksbíla) og ýmsum varningi til heimilisins, til dæmis flatskjám. Og því megi heldur ekki gleyma að fólk hafi upp til hópa gert sínar greiðsluáætlanir, og jafnvel varfærnislegar, og að í þeim áætlunum hafi verið mikið svigrúm til hækkana á lánum, en ekki hafi hins vegar hvarflað að neinum að bankarnir væru komnir út á slíkt hengiflug sem raun bar vitni. Einnig verði að hafa hér í huga að fólk tók á sig skuldbindingar í húsnæðismálum í þeirri trú að það ætti auðvelt með að selja góða eign á góðu verði en hrunið svo gert það að engu svo að nú þurfi margir að greiða af tveimur eignum í einu. Á móti er dregið ögn í land, og talað um að jú jú, auðvitað eigi að hjálpa fólki sem lent hafi slíkum greiðsluvandræðum án þess að hafa sýnt af sér annað fyrirhyggjuleysi en að trúa þjónustufulltrúanum sínum, en sértækar lausnir hljóti að henta slíku fólki, frekar en ein allsherjar niðurfelling sem kannski bara gagnist þeim allra gálausustu eða þeim allra ríkustu. Því er svarað með því að benda á að bönkunum sé ekki treystandi í þeim efnum og það bjóði upp á geðþóttaréttlæti. Þeir pikki út sína þóknanlegu og felli niður skuldir hjá þeim: og svo eru tilgreindir hinir og þessir útrásarkónar, Stímkallar og kvótagosar með allt niðrum sig sem engu að síður hafi fengið stórfelldar afskriftir á ævintýralegum upphæðum og geti nú byrjað upp á nýtt að leggja drög að næsta hruni efnahagslífsins. Þá er bent á að samningur sé samningur, skuld sé skuld; orð skulu standa, það sem maður skrifar undir er skuldbinding. Og spurt: Hvernig yrði eiginlega þjóðfélagið ef það væri matsatriði skuldarans hverju sinni hvort og hvernig hann eigi að borga? Geta menn bara sagt að þeir telji að hér hafi orðið forsendubrestur og ætli ekkert að halda áfram að borga þennan skáp sem keyptur var á visa-rað í febrúar síðastliðnum? Hvernig endar það? Fyrirtækin sem ennþá hjara í landinu ganga út á að selja fólki föt og bíla, bækur, byggingarvörur, húsgögn og rafmagnsvörur, og þurfa náttúrulega að geta reitt sig á að fá greitt fyrir það sem þau selja enda margvíslegur kostnaður sem liggur að baki; Það séu með öðrum orðum ekki bara skuldarar sem hefðu hagsmuni að verja í þessu landi?… Þegar ég vaknaði á sunnudagsmorguninn glumdi í hausnum á mér lagið Give Peace a Change. Við þokumst ekkert með þessu eilífa orðastríði. Við bara tölum okkur upp að knjám. Allir verða að gefa eftir, við verðum að klára þessi mál; snúa okkur að öðru - semja, eða eins og það er svo fallega orðað á íslensku: semja frið.