Bakþankar

Biljónsdagbók 17.6.2007

Jón Örn Marinósson skrifar
þegar Öxar við ána reif í sundur morgunkyrrðina við East Meadow Manor í Surrey, og Dow Jones stóð í 13.424,39 þegar ég tipplaði út á grasbalann og dró íslenska fánann að húni. Mér finnst það partur af samfélagslegri ábyrgð að halda upp á daginn. Ég er nú einu sinni frá þessari eyju þó að ég sé auðvitað orðinn 83% glóball.



Ég dúndraði Öxar við ána í tvígang yfir manorið sem við Mallí tókum á leigu í þrjár vikur. Mér er farið að þykja vænt um Ísland. Það er búið að gera mig svo ríkan að ég þarf ekki að dúsa þar nema þegar mér sýnist eða þegar forsetinn er að útdeila útrásarverðlaunum. Ég hefði svo sem átt skilið að fá orðu þennan sautjánda júní. En það verður víst ekki af því. Mér skilst að eigi að hengja Fálkann á Halla gamla Magg fyrir forystu í viðskiptalífinu. Halli er reyndar orðinn svo heilsulaus af sífelldum bíssnessplottum að væri meir við hæfi að leggja að honum blómsveig.



Ég lyfti glasi af Dom Pérignon og sagði stundarhátt: „Ísland lengi lifi." Mallí stakk höfðinu út um glugga og spurði hvort fólk ætti ekki að fá að sofa. Hún var svo guggin eftir veisluna með Chinese Viking Ventures að hefði virkað eins og bjarnargreiði að óska henni lengri lífdaga. Ég sagði að maður mætti ekki slíta öll tengsl við föðurlandið þó að maður væri með markaðsþynnku á sautjánda júní í sumarbústað í Surrey. Brot af þínu bergi er og allt það stöff.



Mér hefur alltaf þótt vænt um þjóðhátíðardaginn. Ég náði oft að hala heilmikið inn í sölutjaldi niðri í Lækjargötu. Svona dagur er svo mikilvægur til að byggja upp samkennd hjá íslensku þjóðinni. Jafnvel pabbi gamli umbreytist eftir að hann hefur króknað með sendiherrunum niður á Austurvelli og hlustað á þjóðsönginn. Hann er svo uppnuminn að mamma gamla losnar við í heilan dag að hlusta á karlinn nöldra um kvótakerfið og allt sem honum finnst vera að á Íslandi. Ég vona að þeir guggni ekki á því að hafa skrúðgöngur, blöðrur og kvenfélagskaffi í kvótalausu sjávarplássunum fyrir vestan. Það er búst fyrir íslensku þjóðarsálina, jafnvel þó að hún sé pólsk og lands míns föður langt, langt í burtu.



Það stefnir í hlýjan og sólríkan dag í Surrey. Íslenski fáninn lafir á stönginni. Ég tók inn þrjár alkaseltzer og ætla að leggja mig. Ég brosti til Annie vinnukonu á ganginum áðan og sagði við hana á íslensku: „Gleðilega þjóðhátíð." Annie stirðnaði upp og varð í framan eins og hún hefði gert eitthvað af sér: „Kan æ help jú, sör?"






×