Erlent

Bandaríska þingið samþykkir aukafjárveitingu

Jónas Haraldsson skrifar
Öldungadeildarþingmaðurinn Hillary Clinton ræðir við fréttamenn eftir atkvæðagreiðsluna í nótt. Hún greiddi tillögunni ekki atkvæði sitt.
Öldungadeildarþingmaðurinn Hillary Clinton ræðir við fréttamenn eftir atkvæðagreiðsluna í nótt. Hún greiddi tillögunni ekki atkvæði sitt. MYND/AFP
Báðar deildir bandaríska þingsins samþykktu í nótt aukafjárveitingu til hersins án þess að tengja hana við heimkvaðningu hermanna frá Írak.

Þar með lýkur einni lengstu deilu þingsins og forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, en demókratar höfðu lengi ætlað sér að tengja aukafjárveitinguna við heimkvaðningu hermanna. Bush beitti neitunarvaldi gegn öllum frumvörpum þar að lútandi og þar sem demókratar höfðu ekki nægan meirihluta til þess að ógilda ákvörðun forseta, sættu þeir sig við málamiðlun.

Bush sagði nýja frumvarpið merki um að sátt hefði náðst og að báðir flokkar hefðu sýnt stuðning í verki við þá hermenn sem eru að berjast í Afganistan og Írak. Engu að síður eru nokkur skilyrði í því en þau eru öll tengd árangri íröksku stjórnarinnar. Bush getur þó ógilt skilyrðin, ef honum svo sýnist.

Demókratar neituðu að viðurkenna að þeir hefðu beðið lægri hlut í deilunni við Bush. Fyrir að hleypa frumvarpinu í gegn fengu þeir fjármuni til þess að vinna að innanlandsmálum. Leiðtogi demókrata í öldungadeildinni sagði að dagar auðra ávísana bandaríska þingsins til George W. Bush væru nú liðnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×