Fótbolti

Hörður Björgvin verður áfram hjá Juventus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hörður í leik með Fram.
Hörður í leik með Fram. Mynd/Heimasíða Fram
Hörður Björgvin Magnússon verður áfram í herbúðum Juventus á Ítalíu en nokkur óvissa ríkti um framtíð hans.

Hörður gerði fjögurra og hálfs árs samning við félagið í upphafi ársins eftir góða frammistöðu með unglinga- og varaliði þess.

Hann gekk svo upp úr unglingastarfinu í vor og var óvíst hvort hann yrði áfram hjá félaginu eða lánaður annað. Samkvæmt frétt sem birtist á Fótbolta.net í dag kom til greina að lána hann annað hvort til Englands eða Þýskalands.

Hann segir þó í samtali við Fótbolta.net í dag að hann verði áfram hjá Juventus á tímabilinu og muni þá æfa og spila með aðalliðinu. Hann mun þó einnig eiga þess kost að spila áfram með unglinga- og varaliðinu þar sem tefla megi fram þremur eldri leikmönnum í liðinu.

Paul Pogba, sem gekk nýverið til liðs við Ítalíumeistara Juventus frá Manchester United, verður einnig í hópi þessara þriggja eldri leikmanna.

Hörður Björgvin er nítján ára gamall varnarmaður sem lék með Fram hér á landi áður en hann hélt til Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×