Fótbolti

Montella vongóður um að halda Jovetic

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jovetic í leik með Fiorentina gegn AC Milan á síðustu leiktíð.
Jovetic í leik með Fiorentina gegn AC Milan á síðustu leiktíð. NORDIC PHOTOS / Getty
Vinzeno Montella knattspyrnustjóri Fiorentina er vongóður um að hann geti haldið Svartfellingnum Stevan Jovetic hjá félaginu þrátt fyrir að mörg af stærstu liðum Evrópu séu á höttunum eftir honum.

Jovetic sem er aðeins 22 ára gamall framherji skoraði 14 mörk í 27 deildarleikjum á síðustu leiktíð eftir að hafa misst af allri leiktíðinni á undan vegna meiðsla í hné. Hann hefur skorað 10 mörk í 21 landsleik fyrir Svartfjallaland og hefur verið orðaður við Chelsea, Arsenal, Manchester United, Juventus og Barcelona í sumar.

Fréttir helgarinnar herma að Fiorentina hafi hafnaði tilboði Manchester City í þennan unga leikmann sem var fyrirliði ítalska liðsins í 2-0 sigri á Novara í ítalska bikarnum í gær.

Andrea Della Valle eigandi Fiorentina segir að ekki komi til greina að selja Jovetic og Montella telur að leikmaðurinn vilji vera áfram hjá félaginu.

„Ég held að hann yrði vonsvikinn ef hann yrði seldur því við erum að byggja upp gott lið hér. Við erum að sníða lið í kringum hans eiginleika. Við erum með gott lið og ég er viss um Jovetic vilji vera hér áfram,“ sagði Montella við ítalska miðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×