Fótbolti

Níu Napoli-menn réðu ekki við Juventus í ítalska súperbikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Juventus vann í dag Súperbikarinn á Ítalíu í árlegum leik ítölsku meistaranna og ítölsku bikarmeistaranna en leikið var annað árið í röð í Fuglahreiðrinu í Peking í Kína. Meistararnir í Juventus unnu 4-2 sigur á bikarmeisturum Napoli eftir framlengdan leik.

Mikil dramatík var í þessum leik en það nægði ekki Napoli-liðinu að komast tvisvar sinnum yfir í venjulegum leiktíma. Goran Pandev og Juan Camilo Zúniga fengu báðir að líta rauða spjaldið í lok leiks og Juventus skoraði síðan tvö mörk í framlengingunni þegar liðið var tveimur mönnum fleiri inn á vellinum.

Edinson Cavani kom Napoli í 1-0 á 27. mínútu en Kwadwo Asamoah jafnaði fyrir Juve á 37. mínútu. Goran Pandev kom Napoli aftur yfir fjórum mínútum fyrir hálfleik en Arturo Vidal jafnaði í 2-2 úr vítaspyrnu á 74. mínútu.

Goran Pandev fékk síðan beint rautt spjald fyrir mótmæli við aðstoðardómara á 86. mínútu og á fjórðu mínútu í uppbótartíma fauk Juan Camilo Zúnig einnig útaf þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Walter Mazzarri, þjálfari Napoli, var í framhaldinu rekinn upp í stúku fyrir mótmæli.

Juventus komst yfir á 97. mínútu með sjálfsmarki Christian Maggio eftir aukaspyrnu Andrea Pirlo og varamaðurinn Mirko Vucinic inngislaði síðan sigur Juventus á 101. mínútu.

Þetta er í fimmta sinn sem Juventus vinnur ítalska súperbikarinn en félagið tók þennan bikar einnig 1995. 1997, 2002 og 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×