Fótbolti

Sá eini í stúkunni sem fagnaði sigri Udinese

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brovedani geispaði þegar ljósmyndari Getty tók mynd af honum.
Brovedani geispaði þegar ljósmyndari Getty tók mynd af honum. Nordicphotos/Getty
Ítalinn Arrigo Brovedani var eini stuðningsmaður Udinese sem varð vitni að 2-0 útisigri liðsins á Sampdoria í Genúva í efstu deild ítölsku knattspyrnunnar í gærkvöldi.

„Ég var í Genúva á vinnufundi en ég fer venjulega í ferð um svæðið á þessum tíma ársins. Það var algjör tilviljun að Udinese skildi vera að spila hér á sama tíma," segir Brovedani sem hefur verið mikið til umfjöllunar hjá ítölskum íþróttamiðlum í dag.

Að sögn Brovedani var erfitt fyrir hann sem stuðningsmann útiliðsins að útvega sér miða á leikinn. Hann hafi haft samband við Sampdoria sem hafi gert honum auðveldara um vik. Þegar hann mætti á völlinn hafi honum verið boðið að sitja í aðalstúkunni í stað gestastúkunnar sem var auð.

„Ég var harður á því að ég vildi sitja í gestastúkunni enda hafði ég keypt miða í hana," segir Brovedani í samtli við vefmiðilinn Football-italia.net. Brovedani var að sjálfsögðu með fána Udinese með sér.

„Ég var með fánann enda er hann alltaf í bílnum mínum. Stuðningsmenn Sampdoria fögnuðu mér þegar við skoruðum og voru virkilega almennilegir. Öryggisverðirnir buðu mér kaffi og stjórnarmenn Sampdoria gáfu mér treyju liðsins," sagði Brovedani sem virðist ekki hafa leiðst þó myndin hér að ofan gefi tilefni til þess að ímynda sér hið gagnstæða.

Um sex tíma akstur er frá Udinese til Genúa og vegalengdin virðist hafa setið í öðrum stuðningsmönnum Udinese. Sú staðreynd að leikurinn fór fram á mánudagskvöldi en ekki um helgina hefur vafalítið haft sitt að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×