Fótbolti

Juventus hefur áhuga á Drogba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn ítalska úrvalsdeildarfélagins Juventus hafa lýst yfir áhuga sínum að fá Didier Drogba í sínar raðir.

Þetta segir Guiseppe Marotta, framkvæmdarstjóri félagsins, við ítalska fjölmiðla.

Drogba fór frá Chelsea í vor og samdi við Shanghai Shenhua í Kína. Honum mun hafa gengið illa að aðlagast lífinu í Kína en samkvæmt fjölmiðlum ytra getur hann rift samningi sínum við félagið á þessu ári.

„Maður verður alltaf að kanna sína möguleika og það er það sem við höfum gert varðandi Drogba. Við vitum af hans stöðu," sagði Marotta.

„Við þurfum nú að athuga hvort að launakröfur hans samræmist því sem við getum boðið honum. Eftir það þurfum við að fara yfir málin með þjálfara okkar."

„Það er eðlilegt að félag eins og Juventus vilji styrkja sig enda viljum við vinna Meistaradeildina aftur."

Drogba er nú að æfa með landsliði sínu fyrir Afríkukeppnina sem hefst síðar í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×