Fótbolti

Tíu sigrar í tíu leikjum hjá Roma

Óskar Ófeigur Jón skrifar
Marco Borriello fagnar marki sínu með félögum sínum.
Marco Borriello fagnar marki sínu með félögum sínum. Mynd/NordicPhotos/Getty
Roma varð í kvöld fyrsta ítalska fótboltaliðið sem nær að vinna tíu fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu þegar liðið vann 1-0 heimasigur á Chievo.

Roma vantar nú aðeins sigur í viðbót til að jafna Evrópumet Tottenham sem vann 11 fyrstu leiki sína tímabilið 1960-61.

Marco Borriello skoraði eina mark leiksins með skalla á 67. mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Alessandro Florenzi. Þetta var fyrsta deildarmark Marco Borriello á leiktíðinni.

Þjálfari Roma er Frakkinn Rudi Garcia sem áður stýrði Lille í Frakklandi. Í fyrstu tíu leikjum hans sem þjálfari í ítölsku A-deildinni er liðið með 30 stig af 30 mögulegum og markatöluna 24-1.

Frakkinn Jonathan Biabiany hjá Parma er eini leikmaðurinn sem hefur skorað hjá Roma á þessu tímabili en hann kom Parma í 1-0 í 1-3 tapi á móti Roma um miðjan september.

Roma-liðið hefur nú haldið hreinu í sjö leikjum í röð en í marki liðsins stendur hinn 36 ára gamli Morgan De Sanctis sem er á sínu fyrsta tímabili í Roma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×