Fótbolti

Balotelli talar í gátum á Twitter

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
mynd:nordic photos/getty
Mario Balotelli gaf í skyn að hann sé á leið frá AC Milan á Twitter-síðu sinni eftir 1-1 jafntefli Milan og Genoa á San Siro um helgina. Fyrst tísti hann á ensku og svo á ítölsku þar sem hann virðist draga í land.

Fyrst skrifaði hann á ensku „þetta er endirinn“ án þess að útskýra það nánar. Sex klukkustundum síðar tísti hann á ítölsku sem útleggst á þessa leið; „Áfram Milan, skiptir ekki máli hvernig og alltaf“.

Ítölsk blöð fóru strax af stað með vangaveltur um það hvort Balotelli vilji vera seldur í janúar eða hvort hann hafi verið að beina orðum sínum að Massimiliano Allegri þjálfara Milan.

Balotelli var allt annað en sáttur í leikslok en hann klúðraði vítaspyrnu á 36. mínútu í stöðunni 1-1 en hann er nýkominn úr þriggja leikja banni fyrir að úthúða dómara í leik.

Milan er í 11. sæti ítölsku A-deildarinnar og hefur ekkert gengið hjá liðinu í vetur. Liðið hefur ekki unnið í sjö leikjum og það er farið að hafa áhrif á Balotelli sem lét lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum á fyrstu mánuðum sínum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×