Fótbolti

Emil og félagar náðu stigi gegn Inter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil í baráttu við Andrea Ranocchia, fyrirliða Inter, í kvöld.
Emil í baráttu við Andrea Ranocchia, fyrirliða Inter, í kvöld. Vísir/Getty
Inter og Verona skildu jöfn, 2-2, á San Siro í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðin eru nú í 9. og 10. sæti, Inter með 16 stig en Verona 14.

Verona náði forystunni með marki Luca Toni á 10. mínútu, en Mauro Icardi jafnaði metin átta mínútum síðar. Icardi skoraði svo sitt annað mark á 48. mínútu.

Verona-menn fengu dauðafæri til að jafna metin nokkrum mínútum síðar þegar Gary Medel fékk rautt spjald fyrir að handleika boltann innan vítateigs. Toni brást hins vegar bogalistinn á vítapunktinum, en slóvenski markvörðurinn Samir Handanovic varði spyrnu hans.

Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp og mínútu fyrir leikslok jafnaði Nico López metin eftir sendingu frá Javier Saviola.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin sættust á skiptan hlut.

Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Verona en var tekinn af velli á 65. mínútu. Emil spilaði að venju inni á miðjunni og skilaði boltanum vel frá sér, en 87,5% sendinga hans rötuðu á samherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×