Fótbolti

Inter stal Kondogbia frá erkifjendunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kondogbia gerði fimm ára samning við Inter.
Kondogbia gerði fimm ára samning við Inter. vísir/getty
Franski miðjumaðurinn Geoffrey Kondogbia hefur skrifað undir fimm ára samning við Internazionale.

Kondogbia var búinn að ná samkomulagi við erkifjendurna í AC Milan en svo virðist sem Inter hafi hækkað boð sitt og þar með tryggt sér þjónustu miðjumannsins sem sló í gegn með Monaco í Meistaradeild Evrópu í vetur.

Talið er að kaupverðið sé í kringum 25 milljónir punda en Kondogbia gengst undir læknisskoðun hjá Inter í dag.

Kondogbia, sem er 22 ára, er uppalinn hjá Lens en gekk til liðs við Sevilla á Spáni 2012. Hann lék eitt tímabil með spænska liðinu áður en hann fór aftur til Frakklands og samdi við Monaco.

Kondogbia hefur leikið fjóra A-landsleiki, auk fjölda leikja fyrir yngri landslið Frakklands.

Inter náði aðeins 8. sæti í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur en liðið ætlar sér stóra hluti á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×