Menning

Ferðast með börnin

"Ég ferðaðist mikið sem barn og man eftir því að hafa keyrt hinumegin á landið án þess að stoppa. Þá hossaðist maður í bílnum í níu klukkustundir og það var alveg hrikalegt," segir Þóra Sigurðardóttir, annar umsjónarmaður Stundarinnar okkar, en hún hefur mikið ferðast með börnum og hefur ráð undir rifi hverju um hvernig eigi að létta börnum langar bílferðir.

"Mjög sniðugt er að taka með geisladiska og ekki gera þau mistök að hafa bara einn eða tvo því það getur kallað á sturlun hjá þeim fullorðnu að hlusta á sama efnið endalaust en svo er líka hægt að hlusta á barnaefnið í útvarpinu," segir Þóra. Jafnframt segir hún að hægt sé að fara í allskyns bílaleiki þar sem til að mynda hver farþegi velur sér tölustaf eða númer og svo er lesið af bílnúmerum og stig fást ef upp koma þau númer og stafir sem hafa verið valdir og slíkt hið sama sé hægt að gera með liti á bílum.

Hún segir það jafn framt mikilvægt að stoppa reglulega en ekki endilega við sjoppur þar sem oft eru langar biðraðir og það eykur bara á andlega togstreitu. Best er að stoppa á einhverjum góðum stað þar sem hægt er að teygja úr sér og fá sér eitthvað að snarla og gott ráð er að hafa með hollt nesti og þá getur fjölskyldan sest öll saman út í guðsgræna náttúruna og snúið svo aftur í bílinn mett og sátt.

"Það er nauðsynlegt að stoppa og fara úr bílnum ef ferðin er löng og jafnvel sniðugt að stoppa og fara í sund. Að sitja í bíl svona lengi eins og ég gerði í gamla daga er bara geðbilun," segir Þóra. "Ef það er verið að bjóða upp á snarl í bílnum þá skal varast að setja börnin á sykurtripp því það kallar bara á stórslys og klósettferðir á fimm mínútna fresti. Þess vegna er best að hafa nestið hollt," segir Þóra.

Mikilvægt finnst henni að hafa börnin í þægilegum fötum og jafnvel hafa kodda svo þau geti hallað sér. Fyrir minni börnin er nauðsynlegt að sjá til þess að þau sjái vel út úr bílnum til að koma í veg fyrir leiða og bílveiki. "Ef þau fara að þreytast þá er mikilvægt að halda þeim við efnið og segja þeim til dæmis hvað sé bakvið næsta fjall svo þau geri sér grein fyrir lengd ferðarinnar og sjái fyrir endann á henni. Líka er sniðugt að hafa Vegahandbókina með og segja þeim frá merkum hlutum eins og hvar hafi verið bardagi eða eitthvað slíkt," segir Þóra.

"Tímarnir eru breyttir en þegar ég var barn þá voru engir geislaspilarar eða barnaefni í útvarpinu. Ég man það að ég og systir mín bjuggum okkur hreiður í skottinu á Volvo station bíl fjölskyldunnar ægilega ánægðar með tilveruna en þá voru engin bílbelti í bílum og svo mátti ekki opna glugga því þá kom svo mikið ryk inn," segir Þóra hlæjandi.

kristineva@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.