Aldrei hafa fleiri gengið á Hvannadalshnjúk á einu ári en í ár. Fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn áætlar að alls hafi um og yfir 400 manns heimsótt þennan hæsta tind landsins, þar af 391 á þeirra vegum og af þeim komust 323 á leiðarenda.
Ekki er vitað hvað fyrra metið var en í tilkynningu Íslenskra fjallaleiðsögumanna segir að þar sem lang flestir þeirra sem klífa fjallið eru á vegum fyrirtækisins, og að mikil fjölgun hafi orðið á viðskiptavinum þess, sé ljóst að aldrei hafi svo margir stigið fæti á tindinn. Þess má einnig geta að leiðsögumenn fyrirtækisins fóru 58 sinnum á fjallið.
Annað Íslandsmet þessu tengt var slegið í gær þegar leiðsögumaður Íslenskra fjallaleiðsögumanna, Ívar F. Finnbogason, setti hraðamet á fjallið og gekk á tindinn á 2 tímum og 53 mínútum. Hann sló þar með hraðamet sem var í eigu Guðmundar Helga Christjansen en hann var um 3 tíma og 30 mínútur á tindinn. Ívar fór svokallaða Sandfellsleið, sem er um 10,5 km löng, og er hækkuninn ríflega 2000 metrar. Ferðin upp og niður tók 5 tíma og 13 mínútur. Eðlilegur tími á þessari leið er 6-9 tímar upp og 10-15 tímar í heild.
Myndin er af fjallgöngumönnum á Hvannadalshnjúk um síðustu Hvítasunnuhelgi þegar 46 manns náðu toppnum í fylgd sex leiðsögumanna.
Menning