Matur

Við borðum einfaldlega of mikið

"Þú mátt alveg skrifa að ég sé lítið fyrir uppskriftir, en þú mátt alls ekki skrifa að ég sé góður kokkur," segir Atli Heimir, og þvertekur fyrir að upplýsingar um snilld hans í eldhúsinu séu á rökum reistar. "Ég er harðánægður ef einhver fær hjá mér góðan mat, en það er þá fisksalanum að þakka."

Atli Heimir segist helst ekkert vilja nema fisk og grænmeti og ef hann eldar, sem hann gerir þó sjaldan, gufusýður hann fisk.

"Ég vil hafa þetta allt einfaldara með aldrinum og bý í mesta lagi til grískt salat og sýð hrísgrjón með. Það verða þó að vera hýðishrísgrjón, það er ekkert varið í þessi amerísku hvítu."

Tónskáldið er mjög meðvitað um mataræði og segir það hafa breyst með árunum. "Mér verður bara betra af léttum mat, líkaminn er greinilega að segja mér eitthvað. Offitan er líka að verða meiriháttar heilbrigðisvandamál, miklu meira en hermannaveikin sem allir eru að skrifa um núna. Við borðum allt of mikið og hreyfum okkur of lítið. Það er ekkert flóknara."

Atli Heimir, sem ólst upp á miðstéttarheimili í Vesturbænum, fékk eins og aðrir af hans kynslóð fisk oft í viku. "Það var helst eitthvert kjöt á sunnudögum. Þetta var ágætlega hollur matur nema hvað grænmetið var heldur fábreytt. En krakkar voru ekki keyrðir í skólann og svo var auðvitað ekkert sjónvarp. Sjónvarp er svolítið mannskemmandi, en aðallega leiðinlegt. Ég horfi lítið á það."

Hvað gerirðu í staðinn?

Hvernig spyrðu, kona? Það er hægt að gera svo margt annað. Ég les og finnst í 99% tilfella betra að sitja með bók en að horfa á sjónvarpið. Svo fer ég í gönguferðir og okkur hjónunum finnst gaman að skreppa í bíó annað slagið."

Atli Heimir gerir ekki upp á milli fisktegunda og segist ekki eyða alltof miklu púðri í eldamennskuna. "Ég á þessa líka fínu bambuspotta svo ég get slegið tvær flugur í einu höggi og soðið fiskinn í efri pottinum og grænmetið í þeim neðri. Í gríska salatið? Jú, það eru bara agúrkur, tómatar og fetaostur og einhver olía kannski. Allt eftir hendinni og þetta er komið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×