Lífið

Sala á þýðingum bóka Arnaldar eykst mikið hér á landi

Sala á erlendum þýðingum á bókum Arnaldar Indriðasonar hér á landi hefur aukist hröðum skrefum undanfarin misseri og nú er svo komið að bókabúðir flytja þær inn í brettavís.

Eins og greint var frá í gær hlaut Arnaldur Indriðason hin virtu bresku glæpasagnaverðlaun Gullna rýtinginn fyrir bók sína Grafarþögn. Hann hefur átt vaxandi vinsældum að fagna í útlöndum að undanförnu og íslenskar bókabúðir hafa heldur ekki farið varhluta af áhuga útlendra gesta á bókum hans.

Að sögn Óttars Proppé, vörustjóra erlendra bóka hjá Pennanum, hafa þýðingar allra íslenskra höfunda á evrópskum tungumálum verið fluttar inn til sölu og hafa þýðingar á verkum Halldórs Laxness hingað til notið mestra vinsælda. Undanfarin tvö til þrjú ár hefur áhugi fyrir bókum Arnaldar hins vegar vaxið hröðum skrefum og sækir hann nú að Halldóri sem mest seldi höfundurinn.

Óttar segir að áhuginn sé mestur meðal þýskumælandi manna og að þýskar þýðingar á verkum Arnaldar séu fluttar inn í brettavís, eins og hann orðar það. Flestar bóka hans hafi komið út á þýsku og í Þýskalandi hafi hann náð inn á metsölulista. Áhuginn virðist einnig vera að aukast meðal enskumælandi manna en Mýrin hefur nú þegar verið gefin út í Englandi og fyrirhuguð er frekari útgáfa á bókum hans þar. Þá er búið að selja réttinn á fjórum bóka hans til Bandaríkjanna.

Óttar segir mörg erlend forlög hafa haft samband vegna verðlaunanna í gær, bæði þau sem þegar hafi tryggt sér útgáfu á verkum hans og önnur sem hafi áhuga á að gefa þau út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×