Fastir pennar

Þrekvirki ferðaþjónustunnar

Svo lengi sem ekki verða einhverjar stórkostlegar náttúruhamfarir munu fleiri erlendir ferðamenn heimsækja Ísland í ár en samanlagður íbúafjöldi landins. Verður það þá þriðja árið í röð sem íslensk ferðaþjónusta fagnar þeim glæsilega árangri að laða hingað fleiri en 300 þúsund ferðamenn.

Full ástæða er til að staldra við og velta fyrir sér hversu mikið þrekvirki þetta er. Til samanburðar dregur ekkert Norðurlandanna að sér viðlíka fjölda miðað við íbúa. Þar er hlutfall árlegs fjölda erlendra gesta yfirleitt í kringum helmingur af landsmönnum. Og sé miðað við eitt mesta ferðamannaland heims, Frakkland, þá koma þangað á hverju ári um það bil 15 prósent fleiri erlendir gestir en franska þjóðin telur. Allt bendir til þess að í árslok megi bæta 30 prósentum við íbúatölu Íslands þegar ferðamannabókhaldið verður gert upp.

Þetta eru ævintýralegar tölur og mikið er í húfi að uppbygging á innviðum ferðaþjónustunnar verði þannig að hún geti annað öllum þessu mikla gestagangi.

Í nýrri skýrslu um um ferðavenjur erlendra ferðamanna, sem samgönguráðuneytið lét taka saman, kemur fram að ferðamönnum mun halda áfram að fjölga hratt á næstu árum. Er spáð að með sömu þróun og hefur verið undanfarin ár, megi búast við allt að einni milljón ferðamanna hingað til lands árið 2015. Verður það þá meira en tvöfaldur fjöldi landsmanna miðað við mannfjöldaspár.

Þetta eru ævintýralegar tölur og mikið er í húfi að uppbygging á innviðum ferðaþjónustunnar verði þannig að hún geti annað öllum þessu mikla gestagangi. Ef rýnt er í fyrrnefnda skýrslu virðast þau mál vera í góðu lagi um þessar mundir, og reyndar rúmlega það, því um 20 prósent erlendra ferðamanna hafa komið hingað einu sinni eða oftar, og 80 prósent geta hugsað sér að koma aftur til landsins.

Í viðtali við Ríkisútvarpið í gær benti Magnús Oddsson ferðamálastjóri hins vegar á að ekki væri til nógu mikið af menntuðu fólki í ferðaþjónustunni til að sinna þeim mikla fjölda ferðamanna sem spáð er að heimsæki Ísland á næstu árum. Augljóst er að ekki þolir bið að taka á því vandamáli; eins og allir vita kemur fólk sjaldnast aftur þangað sem ekki er tekið vel á móti því.

Annað ekki síður aðkallandi mál er fyrirséður stóraukinn ágangur við náttúruperlur landsins. Náttúran er viðkvæm og mikil og óheft umferð getur haft í för með sér eyðileggingu sem ekki er hægt að bæta. Í skýrslu samgönguráðuneytisins er ekki eytt mörgum orðum í þessa hlið ferðamennskunnar, en þó er bent á að álagið á fjölsóttustu ferðamannastaði landsins sé mikið og að mikilvægt sé að fara eftir ábendingum þolmarkarannsókna um viðeigandi ráðstafanir og áætlanir um úrbætur. Æskilegt er að ferðamálayfirvöld marki afdráttarlausa stefnu í þeim efnum.






×