Erlent

Samsæri um morð og hryðjuverk

Teikning af sakborningum Konan er Cossar Ali, eiginkona Ahmeds Ali, sem er einn þeirra átta sem sæta alvarlegustu ákærunum.
Teikning af sakborningum Konan er Cossar Ali, eiginkona Ahmeds Ali, sem er einn þeirra átta sem sæta alvarlegustu ákærunum. MYND/AP

Ellefu menn, sem ákærðir eru fyrir aðild að samsæri um að sprengja í loft upp farþegaþotur á leið milli Bretlands og Bandaríkjanna, voru leiddir fyrir dómara í Lundúnum í gær. Átta sakborningar, sem sæta ákæru fyrir að leggja á ráðin um morð og hryðjuverk, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram í september. Hinir þrír sem sæta minna alvarlegum ákærum, verða einnig áfram í haldi.

Mohammed Zeb, verjandi eins sakborninganna, vísaði öllum ákærum á bug. Allir sakborningarnir eru breskir ríkisborgarar, múslimar og á aldrinum 19-28 ára. Einn er kona, en hún er eiginkona annars sakbornings.

Þau þrjú sem sæta minna alvarlegu ákærunum eru sökuð um að hafa haft undir höndum búnað sem hægt er að nota til hryðjuverka og að hafa brugðist skyldu til að koma á framfæri vitneskju sem hefði getað orðið til að hindra mannskætt hryðjuverk.

Af þeim 24 sem handteknir hafa verið í Bretlandi vegna málsins var einn látinn laus í gær án ákæru. Auk sakborninganna ellefu sem leiddir voru fyrir dómara í gær eru ellefu aðrir í haldi, sem ekki hafa enn verið ákærðir. Saksóknarar verða að ákveða í dag hvort mönnunum verði birtar ákærur, þeir látnir lausir eða lengra gæsluvarðhalds krafist yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×