Erlent

Ó­þekkt tón­verk eftir Mozart fannst

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mozart var líklega enn barn þegar hann samdi tónverkið sem fannst í Leipzig vikunni. Hér má sjá handritið að verkinu sem er til sýnis í Leipzig.
Mozart var líklega enn barn þegar hann samdi tónverkið sem fannst í Leipzig vikunni. Hér má sjá handritið að verkinu sem er til sýnis í Leipzig. Getty

Áður óþekkt tónverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart uppgötvaðist á bókasafni í Leipzig í  Þýskalandi í vikunni. Mozart hefur sennilega enn verið barn þegar hann samdi verkið.

Í tilkynningu frá bókasafninu í Leipzig segir að tónverkið sé samið fyrir strengjatríó, samanstendi af sjö smáköflum og sé tólf mínútna langt.

Talið er að verkið sé frá seinni hluta sjöunda áratugar átjándu aldar (þ.e. frá 1760 til 1770) og hefur Mozart, sem er fæddur árið 1756, hefur því verið barn eða táningur þegar hann samdi verkið. Mozart var algjört undrabarn og byrjaði að semja tónlist upp úr fimm ára aldri undir leiðsögn föður síns.

Rannsakendur uppgötvuðu verkið þegar verið var að taka saman nýjustu útgáfuna af Köchel-skránni, sem er heildarskjalasafn yfir öll tónverk Mozarts. Mozart er þó ekki talin hafa skrifað handritið sem fannst heldur ku það vera afrit frá 1780 af handriti hans.

Verkið er kallað „Ganz kleine Nachtmusik“ eða „Mjög lítið næturljóð“ og ber því sambærilegt nafn og hans þekktasta verk „Eine kleine nachtmusik“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×