Erlent

Vilja í velmegunarlið með Norðurlöndum

Alex Salmond Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, SNP, stefnir að sjálfstæðu Skotlandi.
Alex Salmond Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, SNP, stefnir að sjálfstæðu Skotlandi. MYND/nordicphotos/gettyimages

Alex Salmond, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, SNP, vill að Skotland verði sjálfstætt ríki sem yrði hlekkur í „velmegunarboga“ með Norðurlöndunum, frá Íslandi til Finnlands. Frá þessu er greint í blaðinu Scotland on Sun­day.

Salmond stefnir að því að ná kjöri til forsætisráðherra skoska heimastjórnarþingsins, en kosningar fara fram til þess á næsta ári. Komist hann í aðstöðu til þess vill Salmond fá valinn hóp sérfræðiráðgjafa í efnahagsmálum til að leiðbeina sér hvernig best sé að haga málum til að markmiðum SNP verði náð: að árlegur hagvöxtur verði um 4 prósent, íbúum Skotlands fjölgi um 3 prósent á næstu tíu árum, og að skoskt efnahagslíf verði í hópi þeirra fimmtán samkeppnishæfustu í heimi innan fimmtán ára.

Talsmenn SNP segja að sjálfstætt Skotland, með full yfirráð yfir olíulindunum í lögsögu þess, myndi strax og sjálfstæðið tæki gildi verða ríkasti hluti Bretlandseyja og stökkva upp í áttunda sæti yfir Evrópuþjóðir með hæstu meðaltekjur á mann, úr átjánda sæti. Ísland er í því fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×