Erlent

Tamílatígrarnir segja eiginlegt stríð hafið

Hermaður stjórnarhersins kannar ökutæki Vegatálmar eru við flestar alfaraleiðir á Srí Lanka og eru margir þjóðvegir með öllu lokaðir. Því er mikilvægt að stjórna höfninni við Trincomalee, því þaðan má flytja vistir um landið, til dæmis til Jaffna-skaga.
Hermaður stjórnarhersins kannar ökutæki Vegatálmar eru við flestar alfaraleiðir á Srí Lanka og eru margir þjóðvegir með öllu lokaðir. Því er mikilvægt að stjórna höfninni við Trincomalee, því þaðan má flytja vistir um landið, til dæmis til Jaffna-skaga. MYND/AP

Stjórnarher Srí Lanka hefur tilkynnt að Tamílatígrar hafi verið hraktir frá Sampúr-þorpi, sem liggur sunnan við Trincomalee í norðausturhluta landsins. Sampúr er á yfirráðasvæði Tamílatígra, samkvæmt vopnahléssamningnum frá 2002. Bein árás virðist því vera brot á samningnum, en stjórnarherinn heldur því fram að árásin hafi verið gerð í sjálfsvörn, þar sem Tígrarnir hafi haldið úti linnulausum árásum frá Sampúr.

Tígrarnir hafa hins vegar biðlað til norrænu eftirlitssveitarinnar, SLMM, að staðfesta að um brot sé að ræða og hvort eiginlegt stríð hafi brotist út í landinu. Það verður í verkahring Lars Sölvberg, nýjum verkefnisstjóra SLMM, að skera úr um þetta á næstu dögum, en talsmaður SLMM, Þorfinnur Ómarsson, sagði í viðtali við Fréttablaðið á dögunum að allar líkur væru á því að vopnahléssamningurinn hefði verið brotinn með sókninni.

Upptök árásarinnar á Sampúr má rekja til bardagans um vatnsveituna í ágúst og er nú til skoðunar hjá SLMM að úrskurða um átökin sem hafa staðið síðan sem eina heild. Stjórnarherinn réðst þá á Tígrana af „mannúðarástæðum“, það er til að koma vatni til sinna skjólstæðinga. Ýmsir stjórnmálaskýrendur hallast nú að því að vatnsveitubardaginn hafi verið hentug afsökun til að framkvæma yfirstandandi stórsókn við Sampúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×