Erlent

Fyrsta sveinbarnið í fjörtíu ár

Fagnaðarfréttir Tókýóbúar lesa aukablöð sem gefin voru út til að flytja fréttir af fæðingunni í gær.
Fagnaðarfréttir Tókýóbúar lesa aukablöð sem gefin voru út til að flytja fréttir af fæðingunni í gær. MYND/AP

 Kiko prinsessa, eiginkona Akishinos yngri sonar Akihitos Japanskeisara, ól í gær son og er hann fyrsta sveinbarnið sem fæðist í keisarafjölskyldunni í fjörtíu ár. Þar með er botninn að mestu dottinn úr umræðu um það hvort breyta eigi fornum reglum um ríkiserfðir í Japan, þannig að kona geti erft keisaradæmið.

Barnið var tekið með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Tókýó. Drengurinn er þriðji í ríkiserfðaröðinni á eftir föður sínum og föðurbróður, krónprinsinum Naruhito. Hirðin í Tókýó tilkynnti að greint yrði frá nafni hins nýfædda prins næstkomandi þriðjudag.

Fréttinni af fæðingu sveinsins var tekið með kostum og kynjum í Japan, ekki síst meðal íhaldsmanna, sem mjög höfðu beitt sér gegn hreyfingu þeirra sem þrýstu á um að ríkiserfðareglunum yrði breytt. Dagblöð gáfu út aukablöð sem rifin voru út og sjónvarpsstöðvar sendu út beint allan daginn af sjúkrahúsinu og sýndu inni á milli heimildaþætti um foreldrana. Þau eiga tvær dætur fyrir.

Þetta er stórkostlegt, sagði Junichiro Koizumi forsætisráðherra er hann var inntur eftir viðbrögðum við tíðindunum. Ekki aðeins keisarafjölskyldan heldur öll japanska þjóðin hlýtur að hafa fundið til mikillar gleði, sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×