Erlent

Lögregla fann sprengiefni

Staðið vörð Lögreglumenn standa vörð við lögreglubíl sem kemur að dómshúsinu í Óðinsvéum með fanga, grunaða um að hafa skipulagt hryðjuverk sem fremja átti í Danmörku.
Staðið vörð Lögreglumenn standa vörð við lögreglubíl sem kemur að dómshúsinu í Óðinsvéum með fanga, grunaða um að hafa skipulagt hryðjuverk sem fremja átti í Danmörku. MYND/AP

Danska lögreglan fann efni sem nota má til sprengjugerðar í húsleitum sem gerðar voru í Óðinsvéum á þriðjudag og í gær hjá mönnum sem grunaðir eru um undirbúning hryðjuverka í Danmörku. Alls voru níu manns handteknir, en tveimur var fljótlega sleppt. Tveir voru úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald, en fimm mannanna voru úrskurðaðir í varðhald fram á laugardag. Komi leyniþjónustan ekki með frekari sannanir, verður þeim sleppt.

Mennirnir tveir í gæsluvarðhaldi geta átt von á að sitja í einangrun í mánuð meðan verið er að rannsaka málið frekar. Báðir ætla þó að áfrýja úrskurðinum, að því er fréttavefum Politiken hefur eftir Erik Terp Jensen, aðstoðarlögregluforingja leyniþjónustunnar. Þar sem málið fer fram fyrir lokuðum dyrum er saksóknurunum óheimilt að tilkynna almenningi hvort einhver mannanna hafi játað sök.

Mennirnir eru allir danskir ríkisborgarar á aldrinum 18 til 33 ára. Allir nema einn eru af innflytjendaættum og segir múslimaklerkur í Óðinsvéum þá vera múslima af palestínskum, íröskum og kúrd­ískum ættum.

Auk efna til sprengjugerðar gerði leyniþjónustan upptækar tölvur, síma og geisladiska. Ekki hefur enn komið fram hvert skotmarkið eða -mörkin áttu að vera eða hvenær árásirnar áttu að eiga sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×