Erlent

Annar hver Svíi býst við sigri borgaralegra

Lars Leijonborg formaður Þjóðarflokksins bað þjóðina afsökunar á tölvunjósnahneykslinu.
Lars Leijonborg formaður Þjóðarflokksins bað þjóðina afsökunar á tölvunjósnahneykslinu.

Annar hver kjósandi í Svíþjóð býst við kosningasigri borgaralegu flokkanna í þingkosningunum 17. september, að því er fram kemur í nýbirtri könnun viðhorfsrannsóknastofnunarinnar Skop.

Könnunin var að vísu gerð áður en það komst í hámæli að starfsmenn Þjóðarflokksins, eins af flokkunum fjórum í kosningabandalagi borgaraflokkanna, hefðu gerst sekir um að brjótast inn á innri vef Jafnaðarmannaflokksins, en þessi niðurstaða er enn ein vísbendingin um að sænskir kjósendur séu farnir að stilla sig inn á að gefa jafnaðarmönnum frí frá stjórnartaumunum, sem þeir hafa haldið um í sextíu af síðustu sjötíu árum.

Samkvæmt könnuninni, sem vitnað er til á fréttavef Dagens Nyheter, trúa 49 prósent aðspurðra á sigur borgaraflokkanna, en 45 prósent að vinstriflokkarnir hafi betur. Hin sex prósentin tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Aldrei hafa fleiri verið á kjörskrá í þingkosningum í landinu, 6.834.169 manns.

Reinfeldt og Persson Frá sjónvarpskappræðum keppinautanna um forsætisráðherrastólinn á miðvikudagskvöld. Samkvæmt mælingum á viðbrögðum áhorfenda þykir Reinfeldt hafa staðið sig betur. nordicphotos/afp

Lars Leijonborg, formaður Þjóðarflokksins, var í yfirheyrslu í beinni útsendingu sænska ríkissjónvarpsins á fimmtudagskvöld. Þar bað hann sænsku þjóðina afsökunar á tölvunjósnahneykslinu, en biðlaði til kjósenda að missa ekki traustið á sér og flokki sínum.

Samkvæmt könnunum fjölmiðla á viðbrögðum áhorfenda þótti Leijonborg komast vel frá yfirheyrslunni. Rétt rúm vika er til kosninga og binda Þjóðarflokksmenn vonir við að á endasprettinum falli þetta leiðindamál aftur í skuggann af eiginlegu kosningamálunum.

Og á þeim vígstöðvum virðast jafnaðarmenn eftir sem áður í vörn. Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins og forsætisráðherraefni borgaraflokkanna, þykir samkvæmt mælingum fjölmiðla á viðbrögðum fólks hafa staðið sig mun betur en Persson í sjónvarpskappræðum síðustu vikna.

Síðast þegar þeir hittust í sjónvarpi, á TV4-stöðinni síðastliðið miðvikudagskvöld, voru atvinnumál og fleiri höfuðmálefni kosningabaráttunnar í brennidepli. Persson lýsti þar jafnað­armönnum sem varðhundum velferðarkerfisins en Reinfeldt boðaði nýja atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar undir sinni forystu.

Meginkosningaloforð borgaralegu flokkanna er að draga úr atvinnuleysi og að lækka skatta.

Þeir Reinfeldt og Persson reyna aftur með sér í sjónvarpskappræðum í ríkissjónvarpinu SVT á sunnudagskvöld en í gær mættust þeir í útvarpinu. Lokakappræðurnar fara fram á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×