Erlent

Kjarnakljúfi lokað í Noregi

Loka þurfti litlum kjarnakljúfi í Noregi aðfaranótt laugardags, þegar aðvörunarbjöllur fóru í gang vegna leka. Vart varð við aukna geislun í klefa sem kjarnakljúfurinn, sem notaður er til rannsókna, er í og slokknaði þá sjálfkrafa á honum.

Í fréttatilkynningu sem Geislavarnir norska ríkisins sendu frá sér í gærdag segir að ekki hafi mælst geislun yfir viðmiðunarmörkum utan við klefann. Málið er í rannsókn og er talið líklegt að aukin geislun í klefanum hafi stafað af leka á kælivatni.

Norsk stjórnvöld leggja bann við kjarnorkuverum og kjarnorkuvopnum á norskri grundu en þó eru tveir kjarnakljúfar reknir þar í rannsóknarskyni.

Atvikið átti sér stað í kjarnakljúfi við norsku Orku- og tæknistofnunina í Kjeller við Lillehammer, um tuttugu kílómetrum norðaustur Ósló.

Enginn var inni í salnum þegar bjöllurnar fóru í gang. „Það var aldrei nein hætta á ferðum,“ segir Atle Valseth, öryggisstjóri við stofnunina, við Expressen.

Kjarnakljúfurinn, sem kallast JEEP II, var gangsettur árið 1966 og er knúinn af auðguðu úrani. Er hann notaður til rannsókna í eðlisfræði og læknisfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×