Erlent

Ríkisstjórnir vissu um leynifangelsin

Javier Solana Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.
Javier Solana Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.

Ríkisstjórnir Bretlands, Póllands, Ítalíu, Þýskalands, Svíþjóðar og sex annarra Evrópusambandsþjóða vissu af leynifangelsum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sem hún rak í Evrópu. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópuþingsins sem birt var í gær.

Í skýrslunni eru evrópskir ráðamenn, þeirra á meðal Javier Solana, utanríkismálastjóri ESB, sakaðir um að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum varðandi fangelsin, sem og leynilegar handtökur grunaðra hryðjuverkamanna innan ESB-landa.

Solana og háttsettur starfsmaður þeirrar deildar ESB sem ætlað er að vinna gegn hryðjuverkum, Gijs de Vries, eru einnig sakaðir um að hafa „sleppt úr og afneitað“ staðreyndum þegar þeir gáfu rannsóknarnefndinni sem samdi skýrsluna upplýsingar.

Jafnframt eru einstakar ríkisstjórnir hvattar til að hefja sjálfstæðar rannsóknir á því hvort brotið hafi verið á mannréttindum innan landamæra þeirra í tengslum við þetta mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×