Erlent

Glerbrotunum rigndi yfir Íslendinga

Glerbrotum rigndi yfir hóp Íslendinga þegar sprengja sprakk við hliðina á þeim í ferðamannabænum Marmaris í Tyrklandi í gærkvöldi. Um þrjú hundruð Íslendingar eru í Marmaris á vegum Úrvals Útsýnar og Plús ferða.

Sextán Vestmannaeyingar voru að ganga eftir aðalgötunni, sem Íslendingarnir kalla Laugaveginn, þegar lítill strætisvagn sprakk í tveggja til þriggja metra fjarlægð. María Pétursdóttir segir að fólk hafi komið börnum út úr strætisvagninum og ein kona hafi skriðið blóðug út úr honum.

Íslendingarnir eru þarna á nokkrum hótelum, meðal annars Forum og Fidan þar sem flestir gestanna eru íslenskir. Á Forum voru margir skelfingu lostnir eftir sprengingarnar og gagnrýna ferðaskrifstofuna Úrval Útsýn harðlega fyrir að hafa ekki samband við farþegana fyrr en síðdegis í dag og fyrir að reyna að gera lítið úr atburðum gærkvöldsins.

Helgi Jóhannsson stjórnarformaður Úrvals Útsýnar segir að einungis einn farþegi hafi hringt í neyðarsíma ferðaskrifstofunnar og honum hafi verið sinnt. Hótelhaldarar hafa ráðlagt fólki að ferðast ekki með strætisvögnum. Margir eru að fara heim á morgun og íhuga nú að taka leigubíl fremur en fara með rútu.

Um 170 Íslendingar hafa bókað sig í ferð til Marmaris á morgun og samtals um eitt þúsund manns á næstu vikum. Helgi Jóhannsson hjá Úrval Útsýn segir að enn hafi ekki borið á afbókunum eftir atburði næturinnar.

Í dag sprakk sprengja í Antalya, öðrum ferðamannastað, og varð þremur mönnum að bana auk þess sem á fjórða tug særðist. Samtök sem tengjast PKK, tyrkneska verkamannaflokknum, sögðu í dag að þeir hefðu verið að verki í Marmaris og Istanbul í gær. Hryðjuverkamenn PKK hafa um áratugaskeið barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×