Erlent

Tugir fórust í flugslysi í Íran

Minnst þrjátíu fórust og tugir slösuðust lífshættulega þegar hjólbarði sprakk á hundrað og fimmtíu sæta flugvél í Íran í dag.

Flugvélin, rússnesk Tupolev, var á leiðinni frá hafnarborginni Bandar Abbas, til Mashad, þar sem milljónir pílagríma koma á hverju ári, til að heimsækja helgistaði Sjía.

Í lendingu sprakk hjólbarði á vélinni, sem þaut út af brautinni án þess að við neitt yrði ráðið og mikill eldur blossaði upp. Farþegarnir í miðju vélarinnar, þar sem hún fór í sundur, fórust flestir, en öll áhöfnin og sextíu farþegar sem sátu fremst og aftast í vélinni sluppu án alvarlegra meiðsla. Fimmtíu voru fluttir slasaðir á sjúkrahús, og margir eru illa haldnir.

Flugfloti Írana er í mjög slæmu ástandi og flugslys eru miklu tíðari í landinu en gengur og gerist. Flugmálayfirvöld í Íran skella skuldinni á Bandaríkjamenn, þar sem viðskiptaþvinganir þeirra geri það að verkum að ekki hafi fengist nauðsynlegir varahlutir í flugvélar landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×