Erlent

Fjögurra námamanna enn saknað

Átta rússneskir námamenn voru fegnir frelsinu þegar þeim var bjargað úr prísund sinni, tæplega fimm hundruð metrum ofan í gullnámu í Síberíu. Þar festust þeir þegar eldur kviknaði í námunni á fimmtudaginn. Tuttugu og einn vinnufélagi þeirra eru látinn og fjögurra er enn saknað.

Það var á fimmtudaginn sem eldur kviknaði á um áttatíu og fimm til hundrað og þrjátíu metra löngu svæði í gullnámu í í Síberíu. Þegar tókst að bjarga þrjátíu og einum námamanni og voru fimmtán úr þeim hópi fluttir á sjúkrahús vegna reykeitrunar. Það var svo seint á fimmtudagskvöldinu sem slökkviliðsmenn náðu tökum á eldinum.

Skemmdir voru töluverðar og hömluðu björgunarstarfi auk þess sem reykur gerði björgunarmönnum erfitt fyrir í fyrstu. Þrjátíu og þriggja námamanna var enn saknað. Eiturgufur höfðu losnað við brunann og óttast að þeir væru allir væru látnir. Um þrjú hundruð björgunarmenn héldu þó áfram að leita þeirra og vonir bundnar við að einhverjir væru enn á lífi. Það var svo snemma í morgun sem búið var að finna lík sextán þeirra. Skömmu síðar tókst björgunarmönnum að losa þrjá námamenn úr prísund sinni.

Fimm til viðbótar fundust svo á lífi en fimm lík fundust svo nokkrum klukkustundum eftir það. Fjögurra er enn saknað og ættingjar þeirra og vinir bíða við námaopið milli vonar og ótta. Talið er að gáleysisleg meðferð á logsuðutæki hafi verið kveikjan að eldinum. Ekkert var unnið í námunni á árunum 1990 til 1995 en endurbætur gerðar á henni þegar vinna hófst á ný. Slys eru sögð of tíð í Síberíu þar sem oft skortir fé til kaupa á öryggisbúnaði og nýjum tækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×