Erlent

Bandaríkjamenn þakka Sýrlendingum skjót viðbrögð

Herskáir múslimar, vopnaðir handsprengjum og byssum, reyndu að brjóta sér leið inn í sendiráð Bandaríkjamanna í Damaskus á Sýrlandi í morgun. Öryggissveitum tókst að hrinda árásinni. Fjórir féllu í átökum, þrír árásarmenn og sýrlenskur öryggisvörður.

Árásin er sögð hafa verið ósvífin. Mennirnir munu hafa verið minnst fjórir og óku þeir bíl, hlöðnum sprengiefni að sendiráðinu með það fyrir augum að sprengja hann í loft upp á afgirtu svæði í kringum sendiráðið. Öryggisverðir skutu að mönnunm og bíllinn sprakk fyrir utan sendiráðssvæðið.

Síðan kom til átaka og þegar þeim lauk lágu þrír árásarmenn í valnum og einn öryggisvörður. Fjórði árásarmaður særðist.

Vitni segjast hafa séð brennt fólk liggja fyrir utan sendiráðið en lögregla hafi þegar komið vegfarendum af vettvangi.

Ellefu særðust í árásinni, þar á meðal öryggisvörður við sendiráðið, tveir Írakar og sjö starfsmenn verksmiðju í næsta nágrenni. Starfsmann kínverska sendiráðsins, sem stendur við sömu götu, sakaði lítillega en hann stóð á þaki vinnustaðar síns þegar bílspengjan sprakk.

Engin samtök hafa formlega lýst árásinni á hendur sér en grundur leikur á að þeir sem hafi staðið að bakin henni tengist al Kaída.

Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lofaði öryggissveitir Sýrlendinga fyrir að bregðast skjótt við aðstejandi ógn við bandaríska hagsmuni þar í landi. Hún bætti því við að enn væri of snemmt að velta því fyrir sér hverjir hefðu staðið að baki árásinni.

Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt stjórn Bashars Assads, Sýrlandsforseta, harðlega. Stjórnvöld í Washington hafa sagt ráðamenn í Damaskus gera lítið til að koma í veg fyrir flutning vopna til Hizbollah-skæruliða í Líbanon auk þess sem Sýrlendingar útvegi andspyrnumönnum í Írak vopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×