Erlent

Framkvæmdir á geimstöðinni hafnar

Byggingarframkvæmdir á alþjóðlegu geimstöðinni hófust í dag. Tveir hugaðir geimfarar vörðu lunganum úr deginum í geimnum utan við geimstöðina í að byggja við hana. Óhætt er að segja að verk þeirra hafi verið töluvert flókið og jafnvel tafsamt.

Geimferjan Atlantis tengdist alþjóðlegu geimstöðinni í gær. Verkefni geimfaranna um borð verður að byggja við stöðina sem hefur ekki verið stækkuð í þrjú og hálft ár. Framkvæmdum við geimstöðina var frestað eftir að geimferjan Kólumbía fórst árið 2003.

Það var svo í dag sem annar geimfarinn, Heidamarie Stanyshyn-Piper, steig út úr þrýstijöfnunarklefanum á geimstöðinni út í hinn víðáttumikla geim til að halda framkvæmdum áfram. Heidamarie er aðeins sjötta konan sem tekur þátt í geimgöngu en hundrað fimmtíu og þrír karlmenn hafa lagt í þá svaðilför áður. Aðeins ein rússnesk kona, af hundrað og átján geimförum, hefur farið í geimgöngu. Skýringin sem er gefin á þessu er að erfitt hafi reynst að finna geimbúninga sem passa fyrir konur.

Á undan Piper var annar geimfari þegar byrjaður að huga að framkvæmdum. Áætlað er að tveir félagar geimfaranna tveggja taki við verkinu á morgun en Atlantis flytur þá síðan á brott eftir rúma viku.

Fulltrúar bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, áætla að geimstöðin verði fullkláruð árið 2010 en til þess þurfi fjórtán geimferðir til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×