Erlent

Dauðadómur kveðinn upp yfir Saddam Hússein

Saddam Hússein var dæmdur til dauða með hengingu nú í morgun.
Saddam Hússein var dæmdur til dauða með hengingu nú í morgun. MYND/AP

Saddam Hússein, fyrrverandi forseti Íraks, var í morgun dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Samkvæmt dómsorði verður hann hengdur. Dómurinn í morgun var kveðinn upp í fyrsta kærumálinu gegn forsetanum en hann var ákærður fyrir aðild að morðum á 148 manns í bænum Dujail árið 1982. Sjíar eru þar í meirihluta.

Forsetinn fyrrverandi mun hafa fyrirskipað morðin eftir að reynt var að ráða hann af dögum. Sex til viðbótar voru ákærðir í málinu. Tveir voru dæmdir til dauða, þrír voru dæmdir í 15 ára fangelsi og einn sýknaður.

Viðbrögð við dómnum hafa verið blendin. Súnní múslimar, en það er trúflokkur Saddams, eru honum mótfallnir og gæti úrskurðurinn aukið á ofbeldi milli trúarflokka í Írak. Margir mannréttindahópar hafa líka sagt að réttarhöldin hafi verið gölluð og að laga þurfi dómstólinn fyrir næstu mál. Viðbrögð Saddams við dómnum voru einföld: "Allahu Akbar!" (Guð er mikilfenglegastur!) og "Lengi lifi þjóðin!".

Lögfræðingar Saddams sögðu réttarhaldið farsa og kölluðu dómstólinn ólöglegan svikadómstól skapaðan af Bandaríkjamönnum og þessvegna hefði réttarhaldið aldrei getað verið sanngjarnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×