Erlent

Óeirðir vegna erfiðra inntökuprófa í lögreglu á Indlandi

Hundruðu manna gengu berserksgang í borginni Ghaziabad í norðurhluta Indlands í gærkvöld til þess að mótmæla erfiðum inntökuprófum í lögregluna. Mennirnir réðust bæði á fólk og farartæki sem á vegi þeirra varð og voru hátt í 30 menn handteknir í óeirðunum.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að lögregla hafi verið nokkrar klukkustundir að ná tökum á ástandinu og beitti hún meðal annars kylfum í átökunum. Alls munu 20 þúsund manns hafa mætt í inntökupróf lögreglunnar en lögregluyfirvöld segjast hafa myndir af óeirðunum og verður umsóknum þeirra sem bera ábyrgð á þeim hafnað.

Yfirvöld á Indlandi reyna um þessar mundir að bæta ímynd lögreglunnar, meðal annars vegna ásakana um víðtæka spillingu og ofbeldi gagnvart borgurum, en ljóst þykir að óeirðirnar bæta ekki ástandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×