Erlent

Gráglettinn háhyrningur

Óli Tynes skrifar
Keikó heitinn, háhyrningur
Keikó heitinn, háhyrningur MYND/ Einar Ólason
Gestir í skemmtigarðinum SeaWorld í San Diego, fylgdust skelfingu lostnir með því, í gær, þegar háhyrningur beit þjálfara sinn tvisvar í fótinn og dró hann niður á botn laugarinnar. Þjálfarinn er á sjúkrahúsi, og ekki alvarlega slasaður.

Háhyrningurinn er kvendýr sem heitir Kasatka. Í lokaatriði sýningarinnar kom hún úr kafi á mikilli ferð, til þess að þjálfarinn gæti stungið sér ofan í laugina af hausnum á henni.

Áhorfendur sáu þjálfarann og Kasötku hverfa ofan á botn laugarinnar, en þar beit hún í fót þjálfarans og hélt honum föstum, í innan við mínútu.

Þegar þau komu upp á yfirborðið reyndi þjálfarinn að róa skepnuna með því að strjúka á henni bakið, en hún greip hann aftur í kjaftinn og fór með hann niður á botn. Þegar þau komu upp eftir það, tókst þjálfaranum að synda að laugarbakkanum.

Ljóst er að Kasatka hefði hæglega getið bitið fótinn af þjálfaranum, eða drepið hann með öðrum hætti. Þetta er því frekar talin gráglettni, en nokkuð annað. En gráglettni rúmlega tveggja tonna háhyrnings, getur óneitanlega verið dálítið óþægileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×