Erlent

Eru Ísraelar að senda frá sér aðvörun um árás?

Fréttaskýrendur velta því fyrir sé hvort Ísraelar hafi verið að senda frá sér aðvörun, þegar Ehud Olmert forsætisráðherra ýjaði að því að Ísrael væri kjarnorkuveldi. Þeir velta því einnig fyrir sér hvort það hafi verið gert í samráði við Bandaríkjamenn.

Robert Gates, hinn nýi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, talaði í síðustu viku um kjarnorkuvopn Ísraela eins og þau væru staðreynd. Ísraelar hafa til þessa hvorki viljað játa því né neita að þeir eigi kjarnasprengjur.

Talið er að Ísraelar eigi einhversstaðar á bilinu áttatíu til eitthundrað kjarnaodda. Þeir hafa ítrekað lýst því yfir að þeir geti ekki sætt sig við að Íranar komi sér upp kjarnorkuvopnum. Því velta menn fyrir sér hvort þeir séu nú að senda út aðvörun um að ef vesturlöndum takist ekki að hemja Írana muni þeir taka málið í sínar hendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×