Leikarinn Jeff Bridges hefur tekið að sér hlutverk í ofurhetjumyndinni Iron Man sem verður framleidd sjálfstætt af fyrirtækinu Marvel Entertainment.
Robert Downey Jr. fer með aðalhlutverkið í myndinni sem fjallar um ofurhetjuna Iron Man og annað sjálf hennar, milljarðamæringinn og iðnjöfurinn Tony Stark.
Gwyneth Paltrow og Terrence Howard leika einnig í Iron Man, sem er væntanleg 2. maí á næsta ári.
Bridges, sem hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til óskarsins, sést næst á hvíta tjaldinu í A Dog Year. Einnig ljáir hann teiknimyndinni Surf"s Up rödd sína.