Heilsa

Frekari rannsókna er þörf

Ókeypis kraftaverkalyf Ævar Guðmundsson segir læknastéttina hafa lítinn skilning á starfi sínu.
Ókeypis kraftaverkalyf Ævar Guðmundsson segir læknastéttina hafa lítinn skilning á starfi sínu.
Þau eru orðin átján árin sem Ævar Jóhannesson hefur helgað starf sitt krabbameinssjúkum og það í sjálfboðavinnu. Úr lúpínu og öðrum jurtum hefur hann útbúið seyði sem orðið hefur mörgum Íslendingum að miklu liði í baráttu sinni við sjúkdóminn og gefið það til þeirra án endurgjalds. Ævar er Hvunndagshetja Fréttablaðsins. Segja má að Ævar hafi látið gagnrýni læknastéttarinnar sem vind um eyru þjóta. Hann fór á eftirlaun fyrir sex árum en hann var starfsmaður Raunvísindastofnunar í tuttugu ár, fyrst sem tæknimaður en síðar vann hann við rannsóknir. Og þessi gamli starfsmaður Raunvísindastofnunar hefur verið kallaður ýmsum nöfnum, þar á meðal skottulæknir, í útvarpi. „Það er ákveðinn þröskuldur fyrir mig að hljóta þessa viðurkenningu því ég hef ekki fengið mikið af þeim í gegnum tíðina,“ segir Ævar. „Auðvitað hef ég fengið viðurkenningar á öðrum sviðum en mér þykir vænt um þessa,“ bætir hann við. Jurtaseyðið er sem fyrr segir unnið úr lúpínu og fimm öðrum jurtum og segir Ævar að útkoman hafi fyrst litið dagsins ljós í árslok 1989. Síðan þá hefur hann helgað sig framleiðslu þess og segist nánast geta talið þá daga sem hann hefur misst úr vinnu sinni við þróun seyðisins og heldur nákvæmt bókhald yfir þá sjúklinga sem hafa notfært sér það. „Ég hef ekki lagt það á mig að telja þá en ég gæti giskað á að þeir væru á milli fimm og sex þúsund. Fyrstu sjúklingarnir sýndu mikla og góða svörun og einn þeirra sem var haldinn banvænu krabbameini á lokastigi læknaðist furðufljótt og var kominn á gott ról eftir mánaðarneyslu. Var hreinlega bara farinn að vinna,“ útskýrir Ævar en segist þó gera sér fulla grein fyrir því að jurtaseyðið sé ekkert kraftaverkalyf í bókstaflegri merkingu. „Auðvitað hafa ekki allir læknast og sumir dáið en þeir eru fleiri sem hafa notið góðs af þessu seyði en ekki,“ bætir hann við. Ævar segist vonast til þess að meiri og nánari rannsóknir verði gerðar á lúpínunni því fátt sé í raun vitað hvað það er nákvæmlega sem hefur þennan lækningarmátt. „Þær eru hins vegar bæði dýrar og umfangsmiklar og í raun þyrti heila rannsóknarstofu undir slíkar rannsóknir.“ Hann lætur sig einnig dreyma um að einhvern tímann muni augu læknastéttarinnar opnast fyrir jurtalækningum en bætir þó við að ekki sitji allir læknar fastir við sinn keip gagnvart þeim. „Mestu þakka ég þó Sigmundi Guðbjarnarsyni, fyrrum háskólarektor, sem hefur sýnt mér ótrúlega mikinn stuðning. Hann var einn örfárra sem höfðu dug og kjark til að afla þessu brautargengis.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×