Heilsa

Vertinn og velgjörðamaðurinn

Getur ekki hugsað sér stemninguna án íslendinganna „Það kom einn þeirra með svið handa mér um daginn þegar ég var að spila. Ég vona að ég sé að verða smá hluti af Íslandi líka.“  fréttablaðið/hrönn
Getur ekki hugsað sér stemninguna án íslendinganna „Það kom einn þeirra með svið handa mér um daginn þegar ég var að spila. Ég vona að ég sé að verða smá hluti af Íslandi líka.“ fréttablaðið/hrönn
Bareigandinn Alexus Remzi Konuk er yfirleitt kallaður Olli en á dögunum kom hann í sína aðra heimsókn til Íslands. Starfið hans hefur vakið vinskap hjá mörgum og hér á hann hauka í horni sem hafa verið heimalningar á barnum hjá honum. „Þetta er bara staður þar sem þú getur mætt og fengið þér drykk og það er alltaf góð tónlist í bakgrunninum,“ segir Olli hógvær þegar hann er beðinn að lýsa aðdráttarafli staðarins. Barinn hefur orðið goðsagnakennt yfirbragð í hugum margra, sumar sögurnar staðfestir eigandinn en aðrar fá hann bara til að brosa véfréttarlega út í annað. Olli hefur nú staðið bak við borðið í Schönhauser Allee í rúm fjögur ár en barinn stofnaði hann ásamt félaga sínum. Þetta er óvenju langur líftími fyrir skemmtistað í Berlín þar sem þeir eiga það til að spretta upp eins og gorkúlur og hverfa jafnharðan. Nú hafa þeir félagar fært úr kvíarnar og stofnað plötufyrirtækið 8MM Musik en af lýsingunum að dæma er stemningin í þeirri bisnessdeild líkt og á barnum – sveitt en heimilisleg. Meðal listamannanna sem 8MM Musik fóstrar er rokksveitin Singapore Sling og íslenski blústónlistarmaðurinn ET Tumason.Allt tvöfalt
Mögulega mánudagskvöld Á 8mm barnum er mesta vodkasalan í Berlín ef miðað er við fermetrafjölda.Mynd/Joe Dilworth
Olli útskýrir að fyrir rúmu einu og hálfu ári hafi hljómsveitin Singapore Sling ráfað inn á barinn. „Ég þekkti þau ekki fyrst því ég hafði bara frétt af hljómsveitinni í gegnum bandaríska fjölmiðla. Þau féllu vel í hópinn en ég tók eftir því að þeir pöntuðu meira en hinir kúnnarnir – allir drykkirnir þurftu að vera tvöfaldir, tvöfaldur vodka, tvöfaldur absint. Ég hafði sett lagið þeirra „Overdriver“ í spilun löngu áður en þegar það byrjaði að hljóma þetta kvöld þá gengu Íslendingarnir af göflunum.“ Þegar Olli komst að því hvaða þyrsta fólk þetta var bauð hann þeim umgang og bað um eintak af plötunni. „Eftir þetta urðum við vinir og ég skipulagði tónleika fyrir þá í Berlín. Á sama tíma vorum við að stofna 8MM Musik og ég sagði Henrik [söngvara og gítarleikara sveitarinnar] að mér þætti synd að fólk í Evrópu þekkti ekki sveitina og hét því að breyta þeirri staðreynd. Þar sem við deilum ákveðnum skilningi virtist það sjálfsagt að við myndum vinna saman.“ Olli vinnur nú að því að skipuleggja tónleikaferðalag Singapore Sling um Evrópu sem fyrirhugað er í vor en plata með úrvali laga af þremur fyrri plötum sveitarinnar kemur út hjá 8MM Musik í maí. Olli segir erfitt að aðskilja barinn frá starfinu hjá útgáfufyrirtækinu. „Eins væmið og það hljómar þá trúum við að barinn bæti einhverju við Berlín. Allir eiga sinn uppáhaldsbar og við erum svo heppin að margir álíta 8MM vera þann stað. Það gildir það sama um útgáfuna – við höfðum til ákveðins hóps og höfum ákveðna fagurfræði.“ Olli segir að markmiðið nú sé að kynna nokkra listamenn, boða fagnaðarerindið og koma góðri tónlist til fleira fólks. „Nú erum við með þrjú bönd á okkar snærum sem er meira en nóg vinna fyrir okkur – við viljum vinna vel og erum ekkert að flýta okkur of mikið.“ Hann segir að það sé samt tilbreyting að vera ekki fastur fyrir innan barinn.Íslensk siðprýði„Það er eitthvað við Íslendingana – einhverjir góðir straumar,“ segir Olli brosandi og útskýrir að það séu ekki aðeins harðir rokkarar og skemmtanaglöð ungmenni sem eigi það til að tapa sér inni á staðnum. „Þegar þýskir bisnessmenn koma á 8MM stoppa þeir aldrei lengi – þeir endast ekki í hálftíma því þeir höndla ekki tónlistina. En þegar íslensku bisnessmennirnir mæta þá hanga þeir bara með okkur og enda á því að fara úr að ofan.“ Á heimasíðu staðarins, 8mmbar.com, er spurt um óeðlilegan fjölda hálfnaktra Íslendinga á barnum en aðstandendurnir segjast þar ekki hafa neina skýringu á því. „Íslendingar hafa bara merkilega góðan tónlistarsmekk og svo held ég að staðurinn spyrjist vel út,“ segir Olli og útskýrir að nú séu um tvö ár síðan Íslendingarnir í Berlín „uppgötvuðu“ staðinn og þetta undarlega samband við landið hófst. „Það er ákveðið fólk héðan sem er orðið hluti af barnum og starfinu þar og nú er næstum ómögulegt að hugsa sér stemninguna án þeirra,“ segir Olli en hann hefur til dæmis fengið hérlenda plötusnúða til þess að skrúfa stemninguna upp og aðra til þess að skenkja drykki. „Barinn er ekki mjög túristavænn en Íslendingarnir eru áhugaverðustu en jafnframt viðkunnanlegustu gestirnir okkar,“ segir hann og áréttar að þó hérlendir gleðipinnar eigi það til að missa sig í partíinu þá séu þeir ávallt kurteisir. Til marks um óvenjulega siðprýði Íslendinganna segir Olli söguna af því þegar Alex Kapranos, söngvari Franz Ferdinand, fékk að heyra það frá einum íslensku gestanna. Þegar Kapranos var sagt frá óskýranlegri þörf eyjaskeggjanna fyrir að tæta sig úr fötunum sagði hann, með verulega skoskum hreim, að hann tryði ekki eigin eyrum. „Þá klifraði einn íslensku fastagestanna upp á barborðið, fór úr að ofan og byrjaði hástöfum að baula á Alex og ef má orða það svo – efast um karlmennsku hans. Það sló þögn á hópinn en öllum fannst þetta gríðarlega skemmtilegt, sérstaklega Alex. „Ég efast um að nokkur geti búið sig undir það að hálfnakinn Íslendingur níðist svona miskunnarlaust á sér.“Fyrir eyru og auguStemningunni á 8MM hefur verið líkt við fyrrum rauðvínshjallinn Sirkus við Klapparstíg og Olli tekur undir þann samanburð. „Þetta hefur aldrei verið áberandi staður. Markmið okkar er að halda fastagestunum okkar glöðum og vera trúir því sem við stöndum fyrir.“ Nafnið vísar til kvikmyndanna en Olli hefur lengi haft áhuga á því að samþætta tónlist og hið sjónræna og á staðnum er kvikmyndum varpað á einn veggjanna. „Sumir spyrja okkur hvort við sýnum bara 8mm myndir eða hvort við séum svona hrifnir af myndinni með Nicolas Cage,“ segir hann hlæjandi en bætir því við að nafnið vísi ekki aðeins til filmugerðarinnar heldur ákveðins hráleika og myrkurs sem staðurinn reynir að fanga á sem flesta vegu. Opnunartíminn er sveigjanlegur og það hefur komið fyrir að nóttin hefur náð fram yfir hádegið næsta dag. „Við reynum að opna milli klukkan níu og tíu á kvöldin,“ segir Olli góðlátlega en bætir við: „Þetta er bar fyrir fólk sem drekkur – það kemur til að vinna smá skemmdir á sjálfu sér og þá vilja menn ekki byrja of snemma.“Borgin að breytast„Berlín er uppáhaldsstaðurinn minn og ég valdi að búa þar,“ útskýrir Olli. Hann er ættaður frá Berlín og þar býr fjölskylda hans en hann ólst upp í Bandaríkjunum. „Þegar einhver segir við mann að barinn okkar sé uppáhaldsstaðurinn þeirra og það sem skilgreinir borgina í þeirra augum þá verður maður orðlaus,“ segir hann stoltur. Hann bætir við að margt bendi til þess að borgin sé að breytast – til dæmis fjölgi erlendum fjárfestum í borginni ört þessa dagana. „Ég get samt ekki sagst vera bjartsýnn eða svartsýnn á framtíðina,“ segir hann að lokum, „ég er ánægður með borgina eins og hún er og reyni á hverjum degi að bæta einhverju við hana.“ n





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.