Góð tilfinning að þjóna 17. mars 2007 00:01 Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri segir tíðarandann vera allt annan í dag en þegar hún hóf störf sín sem kórstjóri árið 1966. Ég lít á starf mitt sem listrænt uppeldisstarf,“ segir Þorgerður. „Kennararstarf þar sem maður tekur á móti ómótuðum unglingum. Það að ná góðum árangri í tónlistinni er auðvitað takmarkið og oft tekst með prýði að ná listrænum hæðum í starfinu. En hlutverk mitt byggist líka mikið á því að vera til staðar, sýna væntumþykju gagnvart einstaklingnum sem þú ert að vinna með og manneskjulegan skilning. Stundum finnst mér eins og ég hafi hreinlega verið auka mamma fyrir suma af nemendum mínum. Leyndardómurinn er að stilla hljóðfærið sitt, kórinn, svo vel að það snerti við sálinni,“ svarar Þorgerður þegar hún er spurð um hvað starf hennar snúist. Þeir fjölmörgu sem hlýtt hafa á söng kóranna hennar Þorgerðar hafa upplifað þann leyndardóm og margir þeir hörðustu staðið sjálfa sig að því að ganga voteygir út af tónleikum.Að þjóna er vanmetið starfdddVinnan sem liggur að baki nokkurra mínútna lagi eða stuttri tónsmíð er þó meiri en nokkur gerir sér grein fyrir, þar sem Þorgerður hvetur fólkið sitt áfram, dag eftir dag, kvöld eftir kvöld í vikur og mánuði. Í hraða og lífsgæðakapphlaupi eiga margir eflaust erfitt með að skilja hvaða elja liggur þar að baki, að vinna svo óeigingjarnt starf sem gefur lítið í aðra hönd. Þorgerður segir verðmætin ekki liggja í peningum, það sé mikill misskilningur að lífsgæðin séu bíll eins og segir í auglýsingunni. „Ég hef alltaf litið á mig sem þjón tónlistarinnar. Og það sem mér finnst svo sorglegt er að samfara því að við nýtum okkur meir og meir alla þá þjónustu sem í boði er, virðumst við Vesturlandabúar vera að missa gleðina yfir því að þjóna og verða öðrum að liði. Of oft er hugsunarhátturinn sá að vinnan sé leiðinlegt fyrirbæri og allt líf eftir að vinnu lýkur sé skemmtunin sem við bíðum eftir. En hver er þessi skemmtun? Hér áður var kennt á laugardögum og í þá daga þekktist það vart að óska náunganum góðrar helgi. Það er vissulega falleg kveðja, að óska einhverjum góðs, en afhverju ekki bara að óska honum góðs mánudags eða þriðjudags alveg eins? Við þurfum að læra aftur að njóta vinnunnar og hversdagsins.“ Ung kona sem vakti forvitniÞegar Þorgerður kom til starfa sem kórstjóri hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð var hún aðeins litlu eldri en nemendurnir sjálfir, eða um 23 ára gömul. Engu að síður vann hún þar frumkvöðlastarf í kórastarfi á Íslandi því í þá daga var engin hefð fyrir því að í framhaldsskólum landsins væru kórar nemenda starfandi. „Þetta var mjög nýstárlegt og framandi í byrjun. Ég var ung, skildi ekki alveg hættuna sem var þarna fyrir hendi og gekk bara inn í þetta á „fjaðraskóm“, léttum skrefum. Þetta brautryðjendastarf í kórstarfi í menntaskóla samræmdist vel hugmyndum þessa nýstofnaða skóla sem var opinn fyrir nýjungum í skólamálum og hálfgerður tilraunaskóli á sínum tíma. Krakkarnir voru sjálfir spenntir fyrir kórnum enda var þetta eitthvað nýtt um leið og fyrirbærið kór var líka svolítið gamaldags en það var varla til að ungir strákar syngju í kór. Það hjálpaði mér líka eflaust að vera nálægt krökkunum í aldri. Ung kona í stuttu pilsi, nýkomin úr námi í Ameríku sem þá var svo langt í burtu, að stjórna kór. Þetta vakti forvitni nemendanna, þeir voru að velta því fyrir sér hver væri kærastinn minn og svona hitt og þetta,“ segir Þorgerður og skellir upp úr. „Þá var ég ekki gamla, stranga Þorgerður,“ bætir hún við. Samheldnir kórfélagarÞorgerður segist líka hafa átt góða að. Fjölskyldu og tónlistarkennarana sína. Og í sínu langa starfi hefur hún alltaf búið að því að vera treyst. „Mér var treyst fyrir þessu starfi sem ungri og brothættri manneskju og það hefur verið mér leiðarljós í mínu starfi: Að treysta ungu fólki. Og það er ekki síður mikið þakkarefni að þetta unga fólk skuli treysta mér í sinni vinnu og verkefnum.“ Þorgerður rifjar upp í tilefni þessara umræðna stutt atvik af æfingu nýverið þegar Atli Heimir Sveinsson kom á æfingu hjá kórnum. „Þetta mikla tónskáld okkar talaði svo fallega til þeirra sem jafningja að ég var hreinlega hrærð. Það hefur verið mér mikil gæfa í þessu starfi að kynnast góðu, skemmtilegu og heilsteyptu fólki og fá að upplifa hluti með þeim í þeirra lífi. Auðvitað þekki ég ekki alla persónulega og náið. En á fyrstu árum kórsins, kynntist ég öllum mjög náið og margir kórfélagar eru meðal minna bestu og nánustu vina. Saman höfum við deilt sorg og gleði og það er ótrúleg upplifun að sjá hve þétt krakkarnir standa saman í gleði og velgengni en líka í erfiðleikum og þegar einhver á bágt. Sömuleiðis er gleði mín mikil að sjá ljós kvikna í augum nemenda minna í söngnum, sem hafa ekki haft það of gott.“ Galdur á hverju haustiÁ hverju hausti gengur Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í endurnýjun lífdaga þar sem nýir og nýir einstaklingar bætast í hópinn og aðrir detta úr. Endurnýjunin er alltaf mikil í Hamrahlíðarkórnum. Engu að síður tekst Þorgerði, ár eftir ár, að mynda sterka heild sem tekst að vera meðal þeirra fremstu í sínu fagi og eftirsótt er af tónskáldum að fá kórinn til að frumflytja verk sín. Hver er galdurinn? „Góð samvinna, mikið úthald, þolinmæði, jákvæður agi og vilji til góðra verka. Ég vil sjálf meina að krakkarnir geri oft miklu betur en þau hafa efni á. Það sem einkennir þennan kór er fyrst og fremst þetta æskuþor, dirfska og einlægni unga fólksins. Þegar við eldumst verðum við oft svo hrædd við okkur sjálf en þetta þekkja þau ekki heldur láta þau kjarkinn ráða för og gefa svo bara í,“ svarar Þorgerður og bætir við að hún hafi lært mikið af því að horfa sífellt á heiminn með þeirra ungu augum. Úthald ekki bara líkamlegt fyrirbæriFerðalög, tónleikar sem opnir eru öllum að kostnaðarlausu og annað í kringum starfið kostar peninga en þá kemur að sjálfsbjargarviðleitninni segir Þorgerður. Það þýðir lítið að sitja og bíða eftir styrkjum og slíku. Kórfélagar safna dósum, selja klósettpappír og annað og reyna þannig að ná saman einhverjum peningum upp í kostnað. „Þjóðfélagið í dag gerir ekki mikið í því að ala upp í fólki sjálfsbjargarviðleitnina sem er svo mikilvæg. Hversdagsleikinn er einhvern veginn að gufa upp og allir dagar eru orðnir hálfspari. Ef til vill fáum við á Íslandi of mikið upp í hendurnar fyrirhafnarlaust. Þetta eyðileggur viljastyrkinn og úthaldið sem manneskjan þarf á að halda til að takast á við allt það sem lífinu fylgir . Úthald er ekki bara eitthvað sem er mælt í líkamsræktarstöðvum heldur líka í lífinu sjálfu,” segir Þorgerður. „Listiðkun er að mestu leyti mikil vinna, þrotlaus ástundun og agi og það á líka við um lífið. Þorgerður segist enn eiga nóg inni og hún upplifir sig enn unga og þróttmikla og hún horfir björtum augum á framtíðina. „Ég vona að ég beri gæfu til að fá að starfa áfram og þegar minn tími kemur að þetta starf deyi ekki með mér heldur fái að vaxa og dafna um ókomna framtíð” segir Þorgerður. Mest lesið Frægar í fantaformi Lífið Framandi en fljótlegir smáréttir um jólin Jól Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Lífið Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Lífið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Lífið Ein glæsilegasta skvísa landsins komin á fast Lífið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Menning Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Gagnrýni Reykti pabba sinn Lífið Dóttir Anítu og Hafþórs komin í heiminn Lífið Fleiri fréttir Eins og að setja bensín á díselbíl „Eins og nýfráskilin kona á fjórða búbbluglasi“ Sjá meira
Ég lít á starf mitt sem listrænt uppeldisstarf,“ segir Þorgerður. „Kennararstarf þar sem maður tekur á móti ómótuðum unglingum. Það að ná góðum árangri í tónlistinni er auðvitað takmarkið og oft tekst með prýði að ná listrænum hæðum í starfinu. En hlutverk mitt byggist líka mikið á því að vera til staðar, sýna væntumþykju gagnvart einstaklingnum sem þú ert að vinna með og manneskjulegan skilning. Stundum finnst mér eins og ég hafi hreinlega verið auka mamma fyrir suma af nemendum mínum. Leyndardómurinn er að stilla hljóðfærið sitt, kórinn, svo vel að það snerti við sálinni,“ svarar Þorgerður þegar hún er spurð um hvað starf hennar snúist. Þeir fjölmörgu sem hlýtt hafa á söng kóranna hennar Þorgerðar hafa upplifað þann leyndardóm og margir þeir hörðustu staðið sjálfa sig að því að ganga voteygir út af tónleikum.Að þjóna er vanmetið starfdddVinnan sem liggur að baki nokkurra mínútna lagi eða stuttri tónsmíð er þó meiri en nokkur gerir sér grein fyrir, þar sem Þorgerður hvetur fólkið sitt áfram, dag eftir dag, kvöld eftir kvöld í vikur og mánuði. Í hraða og lífsgæðakapphlaupi eiga margir eflaust erfitt með að skilja hvaða elja liggur þar að baki, að vinna svo óeigingjarnt starf sem gefur lítið í aðra hönd. Þorgerður segir verðmætin ekki liggja í peningum, það sé mikill misskilningur að lífsgæðin séu bíll eins og segir í auglýsingunni. „Ég hef alltaf litið á mig sem þjón tónlistarinnar. Og það sem mér finnst svo sorglegt er að samfara því að við nýtum okkur meir og meir alla þá þjónustu sem í boði er, virðumst við Vesturlandabúar vera að missa gleðina yfir því að þjóna og verða öðrum að liði. Of oft er hugsunarhátturinn sá að vinnan sé leiðinlegt fyrirbæri og allt líf eftir að vinnu lýkur sé skemmtunin sem við bíðum eftir. En hver er þessi skemmtun? Hér áður var kennt á laugardögum og í þá daga þekktist það vart að óska náunganum góðrar helgi. Það er vissulega falleg kveðja, að óska einhverjum góðs, en afhverju ekki bara að óska honum góðs mánudags eða þriðjudags alveg eins? Við þurfum að læra aftur að njóta vinnunnar og hversdagsins.“ Ung kona sem vakti forvitniÞegar Þorgerður kom til starfa sem kórstjóri hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð var hún aðeins litlu eldri en nemendurnir sjálfir, eða um 23 ára gömul. Engu að síður vann hún þar frumkvöðlastarf í kórastarfi á Íslandi því í þá daga var engin hefð fyrir því að í framhaldsskólum landsins væru kórar nemenda starfandi. „Þetta var mjög nýstárlegt og framandi í byrjun. Ég var ung, skildi ekki alveg hættuna sem var þarna fyrir hendi og gekk bara inn í þetta á „fjaðraskóm“, léttum skrefum. Þetta brautryðjendastarf í kórstarfi í menntaskóla samræmdist vel hugmyndum þessa nýstofnaða skóla sem var opinn fyrir nýjungum í skólamálum og hálfgerður tilraunaskóli á sínum tíma. Krakkarnir voru sjálfir spenntir fyrir kórnum enda var þetta eitthvað nýtt um leið og fyrirbærið kór var líka svolítið gamaldags en það var varla til að ungir strákar syngju í kór. Það hjálpaði mér líka eflaust að vera nálægt krökkunum í aldri. Ung kona í stuttu pilsi, nýkomin úr námi í Ameríku sem þá var svo langt í burtu, að stjórna kór. Þetta vakti forvitni nemendanna, þeir voru að velta því fyrir sér hver væri kærastinn minn og svona hitt og þetta,“ segir Þorgerður og skellir upp úr. „Þá var ég ekki gamla, stranga Þorgerður,“ bætir hún við. Samheldnir kórfélagarÞorgerður segist líka hafa átt góða að. Fjölskyldu og tónlistarkennarana sína. Og í sínu langa starfi hefur hún alltaf búið að því að vera treyst. „Mér var treyst fyrir þessu starfi sem ungri og brothættri manneskju og það hefur verið mér leiðarljós í mínu starfi: Að treysta ungu fólki. Og það er ekki síður mikið þakkarefni að þetta unga fólk skuli treysta mér í sinni vinnu og verkefnum.“ Þorgerður rifjar upp í tilefni þessara umræðna stutt atvik af æfingu nýverið þegar Atli Heimir Sveinsson kom á æfingu hjá kórnum. „Þetta mikla tónskáld okkar talaði svo fallega til þeirra sem jafningja að ég var hreinlega hrærð. Það hefur verið mér mikil gæfa í þessu starfi að kynnast góðu, skemmtilegu og heilsteyptu fólki og fá að upplifa hluti með þeim í þeirra lífi. Auðvitað þekki ég ekki alla persónulega og náið. En á fyrstu árum kórsins, kynntist ég öllum mjög náið og margir kórfélagar eru meðal minna bestu og nánustu vina. Saman höfum við deilt sorg og gleði og það er ótrúleg upplifun að sjá hve þétt krakkarnir standa saman í gleði og velgengni en líka í erfiðleikum og þegar einhver á bágt. Sömuleiðis er gleði mín mikil að sjá ljós kvikna í augum nemenda minna í söngnum, sem hafa ekki haft það of gott.“ Galdur á hverju haustiÁ hverju hausti gengur Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í endurnýjun lífdaga þar sem nýir og nýir einstaklingar bætast í hópinn og aðrir detta úr. Endurnýjunin er alltaf mikil í Hamrahlíðarkórnum. Engu að síður tekst Þorgerði, ár eftir ár, að mynda sterka heild sem tekst að vera meðal þeirra fremstu í sínu fagi og eftirsótt er af tónskáldum að fá kórinn til að frumflytja verk sín. Hver er galdurinn? „Góð samvinna, mikið úthald, þolinmæði, jákvæður agi og vilji til góðra verka. Ég vil sjálf meina að krakkarnir geri oft miklu betur en þau hafa efni á. Það sem einkennir þennan kór er fyrst og fremst þetta æskuþor, dirfska og einlægni unga fólksins. Þegar við eldumst verðum við oft svo hrædd við okkur sjálf en þetta þekkja þau ekki heldur láta þau kjarkinn ráða för og gefa svo bara í,“ svarar Þorgerður og bætir við að hún hafi lært mikið af því að horfa sífellt á heiminn með þeirra ungu augum. Úthald ekki bara líkamlegt fyrirbæriFerðalög, tónleikar sem opnir eru öllum að kostnaðarlausu og annað í kringum starfið kostar peninga en þá kemur að sjálfsbjargarviðleitninni segir Þorgerður. Það þýðir lítið að sitja og bíða eftir styrkjum og slíku. Kórfélagar safna dósum, selja klósettpappír og annað og reyna þannig að ná saman einhverjum peningum upp í kostnað. „Þjóðfélagið í dag gerir ekki mikið í því að ala upp í fólki sjálfsbjargarviðleitnina sem er svo mikilvæg. Hversdagsleikinn er einhvern veginn að gufa upp og allir dagar eru orðnir hálfspari. Ef til vill fáum við á Íslandi of mikið upp í hendurnar fyrirhafnarlaust. Þetta eyðileggur viljastyrkinn og úthaldið sem manneskjan þarf á að halda til að takast á við allt það sem lífinu fylgir . Úthald er ekki bara eitthvað sem er mælt í líkamsræktarstöðvum heldur líka í lífinu sjálfu,” segir Þorgerður. „Listiðkun er að mestu leyti mikil vinna, þrotlaus ástundun og agi og það á líka við um lífið. Þorgerður segist enn eiga nóg inni og hún upplifir sig enn unga og þróttmikla og hún horfir björtum augum á framtíðina. „Ég vona að ég beri gæfu til að fá að starfa áfram og þegar minn tími kemur að þetta starf deyi ekki með mér heldur fái að vaxa og dafna um ókomna framtíð” segir Þorgerður.
Mest lesið Frægar í fantaformi Lífið Framandi en fljótlegir smáréttir um jólin Jól Lára og lyfjaprinsinn opinbera kynið Lífið Ofurpar úr tennisheiminum á Íslandi Lífið Tilfinningar þvælast fyrir tiltektinni Lífið Ein glæsilegasta skvísa landsins komin á fast Lífið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Menning Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Gagnrýni Reykti pabba sinn Lífið Dóttir Anítu og Hafþórs komin í heiminn Lífið Fleiri fréttir Eins og að setja bensín á díselbíl „Eins og nýfráskilin kona á fjórða búbbluglasi“ Sjá meira