Að rækta garðinn sinn 14. apríl 2007 00:01 Undirbúningshópur Díónýsíu Hulda Rós Guðnadóttir, Páll Ragnar Pálsson, Sólbjörg Björnsdóttir, Guðmundur Hallgrímsson, Melkorka Helgadóttir, Arna Sigrún Haraldsdóttir og Friðrik Svanur Sigurðarson. Fréttablaðið/anton brink Hver segir að það sé ekkert að ger-ast úti á landsbyggðinni? Í hug-um listafólks er þar gósenland en eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins Díónýsía er að efla tengsl við landsbyggðina og þá ekki aðeins hjá nemendum í Listaháskólanum heldur öllum þeim sem vilja taka þátt í að rífa niður múrana. Undirbúningshópur, sem skipaður er nemendum úr öllum deildum Listaháskólans, vinnur nú að því að safna saman áhugasömu fólki með frjóar hugmyndir til að sækja heim mismunandi sveitarfélög og vinna með íbúum á staðnum að fjölbreyttri listsköpun. „Það er svo mikil útrás á Íslandi – nú stefna allir til útlanda og mikið er um það að fólk sé bara að sýna eða spila erlendis. Það hefur kannski aldrei komið út á landsbyggðina í þeim tilgangi, né unnið með neinum þar. Það er eiginlega orðið styttra til Berlínar en Dalvíkur,“ segir Páll Ragnar Pálsson sem er einn af skipuleggjendum verkefnisins. „Það er stór partur af hugmyndafræði okkar að fólk rækti garðinn sinn og skoði hvaða blóm spretta þar.“ Áherslan er á samstarf og munu þátttakendur koma úr ólíkum áttum og vinna með alla miðla, þar verður til dæmis tónlistarfólk, myndlistarmenn, rithöfundar, leikhúsfólk og fræðimenn. Búið er að merkja dagsetninguna inn á dagatalið, tímabilið frá 9.-19. júní verður líflegt á landsbyggðinni. Verið er að huga að endanlegum staðarákvörðunum en bæir á borð við Bolungarvík, Hofsós, Djúpavík á Ströndum, Stöðvarfjörður og Borgarfjöður eystri eru á korti hópsins. Einnig er stefnt að því að skrásetja viðburði og vinnuferla á hverjum stað, setja upp sýningu í höfuðborginni í vetur og gefa út bók um verkefnið.Samvinna og tengslHulda Rós Guðnadóttir er í þessum hugsjónahópi og hún rekur hugmyndina til ferðar sem nemendur í myndlistar- og hönnunardeild skólans fóru árið 2000. Sú ferð heppnaðist afar vel en þá heimsóttu nemendur bæi við hringveginn. Nú er hins vegar markmiðið að sækja heim staði sem ekki eru í þeirri alfaraleið og bjóða fleirum að taka þátt. „Fyrst vildum við gera þetta að samstarfi milli nemenda í öllum deildum skólans. Listaháskólinn er mjög dreifður skóli og margir nemendanna væru til í að vinna meira saman. Síðan óx hugmyndin og við ákváðum að stækka þetta enn og takmarka okkur ekki við skólann,“ segir Hulda. Hún áréttar að verkefnið muni einnig brjóta niður hvers konar huglæga múra hvort heldur milli þátttakenda, listafólks eða íbúanna á hverjum stað. Hugmyndin er að hópar muni dvelja á hverjum stað í tíu daga en í hverjum hóp verði listafólk með ólíkan bakgrunn. „Við hvetjum þátttakendur til þess að kynna sér staðhætti og setja sig í samband við fólk á staðnum,“ segir Friðrik Svanur Sigurðarson. „Ef það eru kórar eða leikfélög á staðnum, einhver sem spilar á hljóðfæri eða framleiðslufyrirtæki sem geta gefið efni þá er hægt að nýta allt slíkt. Mikilvægast er að fá fólk til þess að vinna saman og nýta það sem hvert bæjarfélag hefur upp á að bjóða.“ Hulda áréttar að markmiðið sé ekki að listafólkið komi á staðinn með tilbúið verk til þess að skemmta heimamönnum heldur séu þarna einstaklingar að hittast – fólk af öllu landinu sem kynnist í gegnum vinnu sína og geti síðan byggt á þeirri reynslu sinni til framtíðar. „Þetta er ekki miðstýrt verkefni heldur erum við að búa til vettvang. Ef fólk er með hugmyndir þá hjálpum við til við að koma henni í framkvæmd,“ segir hún. „Til dæmis ef tónskáld vill láta frumflytja nýtt verk í sumar þá getum við kannski hjálpað,“ bætir Friðrik við.Ekki skilgreina um ofHópurinn útskýrir að engin leið sé að lýsa því hvernig verkefninu verður háttað á hverjum stað. Það mótist af þátttakendum hverju sinni og þeim aðstæðum sem heimamenn hafa upp á að bjóða. Þau hafa líka forðast að skilgreina verkefnið um of. „Við viljum heldur ekki ýta of mikið á að það komi einhver afurð eða verk út úr starfinu á hverjum stað,“ segir Guðmundur Hallgrímsson og áréttar að þrátt fyrir að þátttakendurnir muni hafa einhverjar hugmyndir þegar þeir leggja upp í ferðina geti allt gerst og hið ófyrirsjáanlega sé kannski það mest spennandi við framtak sem þetta. Hulda bendir á að tækifæri sem þetta sé ótrúlega gott fyrir ungt listafólk sem sé vanara ákveðnu andrúmslofti í höfuðborginni. „Það er líka allt öðruvísi að heimsækja einhvern stað sem ferðamaður. Í gegnum svona verkefni kynnist maður betur því sem er að gerast á hverjum stað.“ „Það er líka allt annar hópur sem kemur að sjá og upplifa listina. Hér í bænum er það mikið til sama fólkið sem mætir og það er ákveðin viðtekin „hegðun“ eða kunnugleiki, til dæmis á myndlistarsýningum. Ég hef trú á því að fólk sem ekki er vant að mæta á myndlistar-sýningar eða uppákomur muni ekki liggja á skoðunum sínum og það sé mjög gott fyrir okkur,“ segir Guðmundur og Friðrik tekur undir að það sé mjög krefjandi og skemmtilegt fyrir listafólkið að takast á við nýja áhorfendur. „Það er meira frelsi í því, þátttakendur verða ekki að gera eitthvað bara fyrir sig og sína heldur eitthvað allt annað,“ segir Arna Sigrún Haraldsdóttir.Rómantík í loftinuHulda segir að erlendir listamenn sem sæki hingað séu ekki endilega bara að koma til Reykjavíkur til þess að vinna. „Það er líka sífellt verið að tala um að fólk vilji flytja af landsbyggðinni, til dæmis frá Vestfjörðum. Ég finn fyrir miklum áhuga hjá listafólki í kringum mig sem vill flytja þangað. Hjá þessum hópi er mikill áhugi fyrir landsbyggðinni – þar eru staðir sem hafa upp á margt að bjóða.“ Páll Ragnar tekur undir þetta: „Ég myndi segja að það væri draumur allra listaspíra núna að búa úti á landi.“ Arna bendir einnig á að tíðarandinn nú einkennist af mikilli rómantík. „Mér finnst þetta verkefni passa mjög vel við það andrúmsloft. Það er eitthvað svo rómantískt að leita rótanna og stefna út í sveit.“ Í þessum hóp eru bæði miðbæjarrottur, Reykvíkingar og aðrir sem eru ættaðir utan af landi. „Mér finnst ég hafa meiri tengsl við Berlín heldur en landsbyggðina,“ segir Hulda íbyggin og sumir í hópnum taka undir það. „Ég myndi segja að ég hafi mjög sterk tengsl við landsbyggðina þó að ég sé miðbæjarrotta í húð og hár,“ bætir Páll Ragnar við. Friðrik segir að viðtökurnar hjá sveitarfélögunum hafi verið mjög góðar. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð hjá fólki úti á landi. Það eru allir ofsahressir og vilja endilega fá okkur í heimsókn.“ Vandinn sé því ekki áhugaleysi heldur hafi stærsta ljónið á veginum verið dýr ferðakostnaður. „Það vantar alveg svona lággjaldarútufélag á Íslandi,“ segir Guðmundur. Sveitarfélögin eru í raun stærstu styrktaraðilar verkefnisins en þau munu sjá þátttakendum fyrir sýningaraðstöðu og gistirými á meðan á verkefninu stendur. „Við gætum ekki gert þetta án aðstoðar frá þeim,“ segir Hulda en allir skipuleggjendurnir vinna sitt í sjálfboðastarfi í eigin frítíma. Hluti vinnunnar er að afla styrkja fyrir verkefnið. „Það er greinilegur vaxandi áhugi hjá fyrirtækjum og stofnunum sem sjá verðmætin í menningu og hverju hún skilar,“ útskýrir Friðrik. „Við bendum þeim á að ef þau styrkja okkur er ekki verið að styrkja einhvern einn listamann heldur fjárfesta í framtíðinni,“ segir hann og bætir við: „Allir sem eru eitthvað verða með í þessu verkefni!“ Hópurinn skellihlær að skensinu en svo áréttar Hulda að vissulega sé þarna að verða til ný hugsun í menningarstarfinu og að þátttakendurnir muni án efa verða áberandi í listalífi komandi ára. Verkefnið á borð við Díónýsíu hefur endalausa vaxtarmöguleika og segist hópurinn vonast til þess að framtakið verði fyrirmynd fyrir svipaðar uppákomur í framtíðinni og þurfi þá ekki endilega að tengjast Listaháskólanum. Svo opni þessar heimsóknir fyrir möguleikann á frekari samstarfi milli einstaklinga og bæjarfélaga, til dæmis varðandi vinnustofur eða sýningarhald. „Svo verða kannski til svona pör, jafnvel börn líka,“ segir Friðrik og vísar til þess að þátttakendur geti þannig reynt að stuðla að fólksfjölgun á landsbyggðinni. „Það væri að minnsta kosti magnað að geta snúið aftur á einhverra þessara staða,“ segir Páll og hópurinn tekur undir að tengslin séu ef til vill mikilvægari heldur en að koma á hefð fyrir árlegrum uppákomum. „Já, það væri náttúrulega best ef þetta gerðist af sjálfu sér og fólk færi út á land til að gera eitthvað af viti,“ segir Guðmundur að lokum. kristrun@frettabladid.is Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Húðrútína Önnu Guðnýjar Eins og að setja bensín á díselbíl Sjá meira
Hver segir að það sé ekkert að ger-ast úti á landsbyggðinni? Í hug-um listafólks er þar gósenland en eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins Díónýsía er að efla tengsl við landsbyggðina og þá ekki aðeins hjá nemendum í Listaháskólanum heldur öllum þeim sem vilja taka þátt í að rífa niður múrana. Undirbúningshópur, sem skipaður er nemendum úr öllum deildum Listaháskólans, vinnur nú að því að safna saman áhugasömu fólki með frjóar hugmyndir til að sækja heim mismunandi sveitarfélög og vinna með íbúum á staðnum að fjölbreyttri listsköpun. „Það er svo mikil útrás á Íslandi – nú stefna allir til útlanda og mikið er um það að fólk sé bara að sýna eða spila erlendis. Það hefur kannski aldrei komið út á landsbyggðina í þeim tilgangi, né unnið með neinum þar. Það er eiginlega orðið styttra til Berlínar en Dalvíkur,“ segir Páll Ragnar Pálsson sem er einn af skipuleggjendum verkefnisins. „Það er stór partur af hugmyndafræði okkar að fólk rækti garðinn sinn og skoði hvaða blóm spretta þar.“ Áherslan er á samstarf og munu þátttakendur koma úr ólíkum áttum og vinna með alla miðla, þar verður til dæmis tónlistarfólk, myndlistarmenn, rithöfundar, leikhúsfólk og fræðimenn. Búið er að merkja dagsetninguna inn á dagatalið, tímabilið frá 9.-19. júní verður líflegt á landsbyggðinni. Verið er að huga að endanlegum staðarákvörðunum en bæir á borð við Bolungarvík, Hofsós, Djúpavík á Ströndum, Stöðvarfjörður og Borgarfjöður eystri eru á korti hópsins. Einnig er stefnt að því að skrásetja viðburði og vinnuferla á hverjum stað, setja upp sýningu í höfuðborginni í vetur og gefa út bók um verkefnið.Samvinna og tengslHulda Rós Guðnadóttir er í þessum hugsjónahópi og hún rekur hugmyndina til ferðar sem nemendur í myndlistar- og hönnunardeild skólans fóru árið 2000. Sú ferð heppnaðist afar vel en þá heimsóttu nemendur bæi við hringveginn. Nú er hins vegar markmiðið að sækja heim staði sem ekki eru í þeirri alfaraleið og bjóða fleirum að taka þátt. „Fyrst vildum við gera þetta að samstarfi milli nemenda í öllum deildum skólans. Listaháskólinn er mjög dreifður skóli og margir nemendanna væru til í að vinna meira saman. Síðan óx hugmyndin og við ákváðum að stækka þetta enn og takmarka okkur ekki við skólann,“ segir Hulda. Hún áréttar að verkefnið muni einnig brjóta niður hvers konar huglæga múra hvort heldur milli þátttakenda, listafólks eða íbúanna á hverjum stað. Hugmyndin er að hópar muni dvelja á hverjum stað í tíu daga en í hverjum hóp verði listafólk með ólíkan bakgrunn. „Við hvetjum þátttakendur til þess að kynna sér staðhætti og setja sig í samband við fólk á staðnum,“ segir Friðrik Svanur Sigurðarson. „Ef það eru kórar eða leikfélög á staðnum, einhver sem spilar á hljóðfæri eða framleiðslufyrirtæki sem geta gefið efni þá er hægt að nýta allt slíkt. Mikilvægast er að fá fólk til þess að vinna saman og nýta það sem hvert bæjarfélag hefur upp á að bjóða.“ Hulda áréttar að markmiðið sé ekki að listafólkið komi á staðinn með tilbúið verk til þess að skemmta heimamönnum heldur séu þarna einstaklingar að hittast – fólk af öllu landinu sem kynnist í gegnum vinnu sína og geti síðan byggt á þeirri reynslu sinni til framtíðar. „Þetta er ekki miðstýrt verkefni heldur erum við að búa til vettvang. Ef fólk er með hugmyndir þá hjálpum við til við að koma henni í framkvæmd,“ segir hún. „Til dæmis ef tónskáld vill láta frumflytja nýtt verk í sumar þá getum við kannski hjálpað,“ bætir Friðrik við.Ekki skilgreina um ofHópurinn útskýrir að engin leið sé að lýsa því hvernig verkefninu verður háttað á hverjum stað. Það mótist af þátttakendum hverju sinni og þeim aðstæðum sem heimamenn hafa upp á að bjóða. Þau hafa líka forðast að skilgreina verkefnið um of. „Við viljum heldur ekki ýta of mikið á að það komi einhver afurð eða verk út úr starfinu á hverjum stað,“ segir Guðmundur Hallgrímsson og áréttar að þrátt fyrir að þátttakendurnir muni hafa einhverjar hugmyndir þegar þeir leggja upp í ferðina geti allt gerst og hið ófyrirsjáanlega sé kannski það mest spennandi við framtak sem þetta. Hulda bendir á að tækifæri sem þetta sé ótrúlega gott fyrir ungt listafólk sem sé vanara ákveðnu andrúmslofti í höfuðborginni. „Það er líka allt öðruvísi að heimsækja einhvern stað sem ferðamaður. Í gegnum svona verkefni kynnist maður betur því sem er að gerast á hverjum stað.“ „Það er líka allt annar hópur sem kemur að sjá og upplifa listina. Hér í bænum er það mikið til sama fólkið sem mætir og það er ákveðin viðtekin „hegðun“ eða kunnugleiki, til dæmis á myndlistarsýningum. Ég hef trú á því að fólk sem ekki er vant að mæta á myndlistar-sýningar eða uppákomur muni ekki liggja á skoðunum sínum og það sé mjög gott fyrir okkur,“ segir Guðmundur og Friðrik tekur undir að það sé mjög krefjandi og skemmtilegt fyrir listafólkið að takast á við nýja áhorfendur. „Það er meira frelsi í því, þátttakendur verða ekki að gera eitthvað bara fyrir sig og sína heldur eitthvað allt annað,“ segir Arna Sigrún Haraldsdóttir.Rómantík í loftinuHulda segir að erlendir listamenn sem sæki hingað séu ekki endilega bara að koma til Reykjavíkur til þess að vinna. „Það er líka sífellt verið að tala um að fólk vilji flytja af landsbyggðinni, til dæmis frá Vestfjörðum. Ég finn fyrir miklum áhuga hjá listafólki í kringum mig sem vill flytja þangað. Hjá þessum hópi er mikill áhugi fyrir landsbyggðinni – þar eru staðir sem hafa upp á margt að bjóða.“ Páll Ragnar tekur undir þetta: „Ég myndi segja að það væri draumur allra listaspíra núna að búa úti á landi.“ Arna bendir einnig á að tíðarandinn nú einkennist af mikilli rómantík. „Mér finnst þetta verkefni passa mjög vel við það andrúmsloft. Það er eitthvað svo rómantískt að leita rótanna og stefna út í sveit.“ Í þessum hóp eru bæði miðbæjarrottur, Reykvíkingar og aðrir sem eru ættaðir utan af landi. „Mér finnst ég hafa meiri tengsl við Berlín heldur en landsbyggðina,“ segir Hulda íbyggin og sumir í hópnum taka undir það. „Ég myndi segja að ég hafi mjög sterk tengsl við landsbyggðina þó að ég sé miðbæjarrotta í húð og hár,“ bætir Páll Ragnar við. Friðrik segir að viðtökurnar hjá sveitarfélögunum hafi verið mjög góðar. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð hjá fólki úti á landi. Það eru allir ofsahressir og vilja endilega fá okkur í heimsókn.“ Vandinn sé því ekki áhugaleysi heldur hafi stærsta ljónið á veginum verið dýr ferðakostnaður. „Það vantar alveg svona lággjaldarútufélag á Íslandi,“ segir Guðmundur. Sveitarfélögin eru í raun stærstu styrktaraðilar verkefnisins en þau munu sjá þátttakendum fyrir sýningaraðstöðu og gistirými á meðan á verkefninu stendur. „Við gætum ekki gert þetta án aðstoðar frá þeim,“ segir Hulda en allir skipuleggjendurnir vinna sitt í sjálfboðastarfi í eigin frítíma. Hluti vinnunnar er að afla styrkja fyrir verkefnið. „Það er greinilegur vaxandi áhugi hjá fyrirtækjum og stofnunum sem sjá verðmætin í menningu og hverju hún skilar,“ útskýrir Friðrik. „Við bendum þeim á að ef þau styrkja okkur er ekki verið að styrkja einhvern einn listamann heldur fjárfesta í framtíðinni,“ segir hann og bætir við: „Allir sem eru eitthvað verða með í þessu verkefni!“ Hópurinn skellihlær að skensinu en svo áréttar Hulda að vissulega sé þarna að verða til ný hugsun í menningarstarfinu og að þátttakendurnir muni án efa verða áberandi í listalífi komandi ára. Verkefnið á borð við Díónýsíu hefur endalausa vaxtarmöguleika og segist hópurinn vonast til þess að framtakið verði fyrirmynd fyrir svipaðar uppákomur í framtíðinni og þurfi þá ekki endilega að tengjast Listaháskólanum. Svo opni þessar heimsóknir fyrir möguleikann á frekari samstarfi milli einstaklinga og bæjarfélaga, til dæmis varðandi vinnustofur eða sýningarhald. „Svo verða kannski til svona pör, jafnvel börn líka,“ segir Friðrik og vísar til þess að þátttakendur geti þannig reynt að stuðla að fólksfjölgun á landsbyggðinni. „Það væri að minnsta kosti magnað að geta snúið aftur á einhverra þessara staða,“ segir Páll og hópurinn tekur undir að tengslin séu ef til vill mikilvægari heldur en að koma á hefð fyrir árlegrum uppákomum. „Já, það væri náttúrulega best ef þetta gerðist af sjálfu sér og fólk færi út á land til að gera eitthvað af viti,“ segir Guðmundur að lokum. kristrun@frettabladid.is
Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Húðrútína Önnu Guðnýjar Eins og að setja bensín á díselbíl Sjá meira