Heilsa

Hreint Ísland á Einari Ben

Að sögn Jóns Páls Haraldssonar rekstrarstjóra verður hægt að rekja hráefnið á sérseðli Einars Ben alla leið heim á bæ.
Að sögn Jóns Páls Haraldssonar rekstrarstjóra verður hægt að rekja hráefnið á sérseðli Einars Ben alla leið heim á bæ. MYND/Anton

Veitingastaðurinn Einar Ben leggur aukna áherslu á íslenskt hráefni með nýjum matseðli. „Breytingin er sú að allt grunnhráefni héðan í frá verður íslenskt. Ef íslenskt hreindýr fæst ekki, þá verðum við bara ekki með hreindýr,“ útskýrði rekstrarstjórinn Jón Páll Haraldsson.

Allt kjöt og allur fiskur mun lúta þessum reglum, og að sögn Jóns Páls verður miðað við að hafa íslenskt grænmeti á boðstólum líka. „Það er kannski erfitt um miðja vetrarmánuði, en við reynum að hafa það alltaf íslenskt,“ sagði hann.

Þar að auki mun Einar Ben bjóða upp á sérseðil innan matseðilsins undir heitinu Hreint Ísland.

„Þetta verða sex til átta réttir. Sumir staðir eru með sælkeraseðil, og við erum með Stolt matreiðslumeistaranna. Þetta verður viðbót við það,“ útskýrði Jón Páll. Hráefnið á þeim seðli verður íslenskt frá upphafi til enda. „Við leitumst líka við að geta nefnt uppruna hráefnisins. Þannig verður helst hægt að rekja það heim á bæ, og alla vega heim í sveit,“ sagði Jón Páll. Á kynningarseðlinum er til dæmis að finna reyktan silung frá Svartárkoti í Bárðardal og naut frá Lyngholti í Leirársveit. „Við munum líka keppast við að vera með lamb frá vissum afréttum og veljum bestu afréttirnar, þar sem við vitum að gróðurinn er fjölbreyttur,“ sagði Jón Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×