Heimildarkvikmynd Þorsteins Jónssonar um Ástþór Skúlason verður sýnd í Háskólabíói á morgun klukkan sex. Myndin hefur vakið mikla athygli og var meðal annars sýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg sem fram fór um helgina.
Myndin lýsir lífsbaráttu Ástþórs sem hefur alltaf dreymt um að verða bóndi. Á málinu er þó einn hængur því Ástþór er lamaður fyrir neðan mitti og fer ferða sinna í hjólastól. Skynsemin segði flestum að flytjast á mölina, fá sér íbúð í blokk og vinnu fyrir framan tölvuskjá. Sveitin heldur hins vegar sterkt í hann og Ástþór leggur ekki árar í bát. Þótt valið þýði óyfirstíganlegar hindranir ætlar hann að gera það sem nauðsynlegt er til að geta búið á sinni jörð og rækja þau störf sem þar er að sinna.