Evrópskir vísindamenn hafa fundið heilmikið jökulsvæði á suðurpóli Mars. Ef það bráðnaði er talið að vatn myndi þekja stóran hluta plánetunnar. Það er geimfar á braut um Mars sem hefur tekið myndir af ísbreiðunum. Það eru vísindamenn á vegum Evrópusku geimferðastofnunarinnar sem kynntu niðurstöðurnar og birtu í dag. Rannsóknin var gerð með tækni frá Bandarísku geimferðastofnuninni, NASA, og ítölskum aðilum.
John Murray, vísindamaður sem vinnur að verkefninu segir fyrirbærið aðeins um 5 milljón ára gamalt. Það þyki kannski mjög gamalt en í jarðfræðilegum skilningi sé það mjög ungt. Svo virðist sem vatnið hafi komið upp sem flóð úr iðrum Mars í stórkostlegum náttúruhamförum. Það hafi farið um mjög langan veg, nokkur hundruð kílómetra, og þeki svæði sem sé á stærð við Norðursjó.
Þetta sé því stórt svæði, um 50 metrar að dýpt og því álíka stórt og djúpt og Norðursjórinn Þar sem flóðið hafi komið úr iðrum Mars bendir sumt til þess að undir yfirborði Mars sé raki og hiti. Vitað sé að slíkt hafi gerst áður á Mars. Því sé það áhugavert að slíkt gerist enn því á þessum stöðum gæti líf hugsanlega þróast. Murray vill ekki segja að það hafi gerst en hafi það gerst á Mars væri það á þessum hlýju og röku stöðum rétt undir yfirborðinu. Því gæti fundist merki um líf í þessum ísbreiðum.
Rannsóknir Evrópsku geimferðastofnunarinnar á Mars halda áfram enda um viðamikið verkefni að ræða. Mælingar hófust snemma árs 2004 og ekki áætlað að þeim ljúki fyrr en í fyrsta lagi í maí 2009.