Erlent

Verksviði SÞ í Írak breytt

Guðjón Helgason skrifar

Verksvið Sameinuðu þjóðanna í Írak hefur verið víkkað að tillögu Breta og Bandaríkjamanna. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru andvígir því að þurfa að snúa aftur til Íraks en þaðan voru þeir flestir kallaðir eftir mannskæða sprengjuárás 2003.

Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Samkvæmt henni er umboð þeirra starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem fyrir eru í Írak framlengt í ár til viðbótar og fleiri verk færð á þeirra borð. Starfsmenn verða níutíu og fimm en eru nú sextíu og fimm.

Fulltrúum samtakanna er heimilað að hjálpa íröskum stjórnvöldum þegar kemur að efnahags- og mannréttindamálum, framkvæmd kosninga, stjórnarskrárgerð og meðferð flóttamanna. Þeir geta einnig aðstoðað við að koma á viðræðum milli Íraka og fulltrúa nágrannaríkja um landamæravörslu, orkumál og flóttamann. Þær viðræður geta síðan farið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og með vernd þeirra.

Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fagnaði niðurstöðunni og sagði samtökin vilja vinna náið með Írökum að þróun mála þar í landi.

Ekki eru þó starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sáttir við þessa ákvörðun. Flestir þeirra voru kallaðir heim frá Írak árið 2003 þegar æðsti sendifulltrúi samtakanna týndi lífi í sprengjuárás á höfuðstöðvarnar í Bagdad. Sumir háttsettir fulltrúar Sameinuðu þjóðanna vilja kalla alla starfsmenn þeirra heim frá Írak þar til hægt verði að tryggja öryggi þeirra og almennra borgara betur. Óttast margir þeirra að hersveitir Bandaríkjamanna geti ekki varið starfsfólkið svo vel sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×