Erlent

Minnst 500 látnir

Guðjón Helgason skrifar

Minnst 500 manns týndu lífi og 1500 slösuðust í tveimur öflugum jarðskjálftum sem skóku Perú í nótt. Upptök skjálftans eru í Kyrrahafinu, suð-austur af höfuðborginni Líma. Flestir hinna látnu bjuggu í strandhéraðinu Ica.

AFP fréttastofan greindi frá því í kvöld að minnst 500 hefðu týnt lífi og nærri 1500 slasast. Skjálftarnir tveir mældust 7,9 og 7,5 á Richter og tveir eftirskjálftar mældust 5,9 og 5,4 á Richter. Þeir áttu upptök sín um 145 kílómetrum suð-austur af höfuðborginni Líma við Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku.

Skjálftahrinan reið yfir um kvöldmatarleitið í gær að staðartíma, skömmu fyrir miðnætti að íslenskum tíma.

Í höfuðborginni Líma hristust hús og rafmagn fór af stóru svæði. Fólk þaut í ofboði út á myrkvaðar göturnar. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir Perú, Chile og Kólumbíu en hún var dregin til baka skömmu síðar.

Í Ica héraði, suður af Líma, urðu afleiðingar skjálftanna mun verri. Fjölmörg hús gjöreyðilögðust. 650 þúsund manns búa á svæðinu og margir allir hinna látnu voru þar þegar hamfarirnar dundu yfir.

Alan Garcia, forseti Perú, hefur lýst yfir neyðarástandi á svæðinu. Heilbrigðisstarfsmenn komu aftur til starfa en þeir hafa verið í verkfalli síðustu daga.

Óttast er að enn fleiri eigi eftir að reynast látnir í hamförunum. Björgunarmenn leita nú í rústum húsa - óttast er að margir liggi þar lifandi nú en óvíst hvort hægt verði að bjarga þeim í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×