Erlent

Mannskæðir skógareldar í Grikklandi

Guðjón Helgason skrifar

Rúmlega 40 manns hafa týnt lífi í miklum skógareldum sem geisa í Suður-Grikklandi. Óttast er að enn fleiri eigi eftir að verða eldunum að bráð.

Björgunarmenn hafa fundið 41 brunnið lík á Peloponnese-skaga þar sem eldar hafa logað síðan í gær. Eldarnir breiddu hratt úr sér og því tókst ekki að rýma sum hættusvæði í tæka tíð. Lík hafa fundið í brunnum bílum og húsum og á sviðnum engjum. Fólk hefur ekki náð að forða sér og sumt setið fast þar sem eldarnir hafa króað það af.

Björgunarsveitir áttu fullt í fangi með að hjálpa fólki og gátu ekki svarað hjálparbeiðnum allra. Óttaslegnir íbúar hringdu í sjónvarps- og útvarpsstöðvar til að biðja um hjálp sem í sumum tilvikum var ekki hægt að veita.

Erfitt verður fyrir slökkviliðsmenn að berjast við eldana í dag en þeir breiðast enn út. Hitinn á svæðinu mælist um fjörutíu gráður.

Kostas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, segir þetta ólýsanlegan harmleik og hefur óskað eftir aðstoð Evrópusambandsins.

Í fyrstu var talið að eldarnir myndu einvörðungu valda vistfræðilegum hörmungum en ekki miklu manntjóni. Raunin hefur nú orðið önnur. Grikkir eru ævareiðir stjórnvöldum sem þeir segja hafa brugðist hægt og illa við hættunni. Fullvíst er talið að Karamanlis, forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans verði refsað í þingkosningum eftir þrjár vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×