Formúla 1

Massa byrjaði sem matarsendill

Felipe Massa og Lewis Hamilton berjast um titilinn á heimavelli Massa um helgina. Annarhvorr þeirra verður arftaki Kimi Raikkönen.
Felipe Massa og Lewis Hamilton berjast um titilinn á heimavelli Massa um helgina. Annarhvorr þeirra verður arftaki Kimi Raikkönen. Mynd: Getty Images

Brasilíumaðurinn Felipe Massa er að keppa að sínum fyrsta meistaratitli í Formúlu 1 á heimavelli um helgina. En fyrstu kynni hans af íþróttinni voru sem matarsendill fyrir keppnisliðin þegar þau heimsóttu Interlagos brautina

Massa vann hjá veitingahúsi í Saó Paulo sem sá keppnisliðum fyrir pasta og banönum. Massa nýtti sér það og sníkti passa inn á mótssvæðið gegnum eigandann sem gilti til laugardags. En til að komast að innsta kjarna á sunnudeginum þá þurfti hann að sendast með vörur til að komast í tæri við stjörnurnar.

"Ég sagði við yfirkokkinn hjá Benetteon, Felice Guerini að ég myndi einn daginn hitta hann sem kappakstursmaður. Hann jánkaði því bara vingjarnlega. Horfði góðlega á matarsendilinn og sagði. Allt í lagi...."

"Ég spurði hann svo nokkrum árum síðar hvort hann þekkti mig. Hann gerði það ekki og ég útskýrði fyrir honum okkar fyrstu kynni. Núna er Felice kokkur Ferrari og viði vinnum saman....", sagði Massa.

Massa byrjaði í Formúlu 1 sem ökumaður Sauber, en þótti nokkuð viltur og mistækur. Hann varð síðan þróunarökumaður Ferrari og varð góður vinur Michael Schumacher, sem reyndist honum eins og lærifaðir.

Massa keppir á heimavelli á Interlagos brautinni, en þar tók hann sín fyrstu skref í kappakstri á kartbraut.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×